McDonald's hamborgari og rafmagn á bílinn
Hamborgarakeðjan McDonald's ætlar að setja upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sölustöðum sínum í Svíþjóð og víðar. Fyrstu hraðhleðslustaurarnir sem eru af gerðinni McCharge eru þegar komnir upp við stóran hamborgarastað í suðurjaðri Stokkhólmsborgar. Myndin er frá opnun þeirra 26. sept. sl.
Við þessa McCharge hleðslustaura geta tengst rafbílar af gerðunum Nissan Leaf, Mitsubishi i-MiEV, Citroën C-Zero, Peugeot iOn og Fiat 500. Allir þessir bílar þurfa svokallaðan CHAdeMO hraðhleðslubúnað sem skilar jafnstraumi. Væntanleg er svo uppfærð útgáfa McCharge sem einnig verður hægt að stinga Renault Zoe í samband við en sá bíll mun þurfa riðstraumshleðslu.
Þessir umræddu hleðslustaurar eru það öflugir að þeir ráða við að hlaða geymana í CHAdeMO bíl (t.d. Nissan Leaf) upp í 80 prósent hleðslu á einungis 20 mínútum. Ef hlaðinn er bíll með riðstraumi (AC) eru afköstin 43 kílóWött en með jafnstraumi (DC)eru þau 50 kílóWött.
Að geta hlaðið svo stóra rafgeyma upp á þetta skömmum tíma er ekki einfalt mál og margar erfiðar tæknilegar hindranir hefur þurft að yfirstíga áður en það varð hreinlega mögulegt. En framfarir í þessum efnum hafa verið stórstígar og ekki er langt síðan Tesla hóf uppbyggingu á svipuðu dreifineti þar sem ofur-hleðslutæki eru uppistaðan. McDonalds í Svíþjóð og Tesla á sínum heimavelli í Kaliforníu eru þannig að feta svipaða slóð. En stærsti munurinn á þessum tveimur verkefnum er þó sá að Tesla dreifikerfið virkar einungis fyrir Tesla bíla en McDonaldskerfið á að vera fyrir alla rafbíla.
Reyndar hafa hleðsluinnstungur verið lengi til staðar hjá McDonald´s en bara af sömu gerð og venjulegar heimilisinnstungur. Tveggja klukkustunda hleðslutími í slíkum innstungum nær hins vegar einungis til að skila straumi til ca. 20 km aksturs að meðaltali. En með nýja McCharge hraðhleðslubúnaðinum eru hleðsluafköstin margföld.
Alls ætlar McDonald's að koma upp hraðhleðslustöðvum við sölustaði sína á yfir 50 stöðum, m.a. meðfram E18 veginum milli Stokkhólms og Osló og meðfram E4 veginum milli Stokkhólms og Malmö. Áætlað er að verkinu ljúki fyrir lok næsta árs.