Megin orsakavaldur umferðarslysa?
Það er almenn trú fólks að umferðarslys á vegum úti, sérstaklega þau sem krefjast mannslífa verði í flestum tilfellum rakin til áhættusækni ökumanna og ofsaaksturs. Þessu trúir fólk ekki síst vegna þess að hverskonar öfgahegðun í umferðinni og slys sem af henni hljótast fá mesta fjölmiðlaathygli og mesta umfjöllun.
Hlutirnir eru hins vegar ekki alveg svona einfaldir ef marka má nýja rannsókn sem gerð var hjá háskólanum í Adelaide í Ástralíu fyrir umferðaröryggisstofnunina CASR (Centre for Automotive Safety Research). Rannsóknin leiðir í ljós að meirihluti slæmra slysa á vegum úti verða sjaldnast vegna meðvitaðrar öfgahegðunar og glannaskapar í umferðinni heldur er aðdragandi slysanna oftast sá að venjulegt fólk gerir einhverskonar mistök, jafnvel minniháttar mistök í akstrinum. Þessi mistök verða svo upphaf atburðarásar sem endar með skelfingu. Það er því meginatriði þegar vegir, umferðarmannvirki og umferðarkerfi eru hönnuð, að þessi mannlegi mistakaþáttur sé tekinn af alvöru með í reikninginn og vegurinn eða umferðarmannvirkin á sinn hátt „leiðrétti“ eða „fyrirgefi“ mistökin sem fólk gerir og þannig verndi líf og limi vegfarenda, fari eitthvað úrskeiðis.
Þetta þýðir með öðrum orðum það að flest stórslysanna á vegum úti sem upphaf sitt eiga í minniháttar mistökum sem venjulegt fólk gerir, verða vegna rangrar öryggishönnunar og –frágangs á veginum eða umferðarmannvirkinu sjálfu. Þetta kalla Ástralirnir umferðarkerfisgalla eða System Failure. Að þessum kerfisgalla beri fyrst og fremst að beina athyglinni að og huga beri fyrst að endurbótum á öryggi veganna í stað þess að alhæfa stöðugt um öfgahegðun og ofsaakstur. „Það er mikilvægt að flokka orsakir slysanna rétt og með vel skilgreindum hugtökum eftir því hvort aðdragandinn var „kerfisgalli“ eða öfgahegðun. Þannig getum við greint vandann og hvernig og hversu mikið við getum fækkað slysunum með því að endurbæta öryggisþætti vegakerfis og vegamannvirkja,“ segir Lisa Wundersitz stjórnandi rannsóknarinnar.
Einmitt þetta var gert í umræddri rannsókn í þeim tilgangi að meta annarsvegar hlutfall hönnunarágalla umferðarmannvirkja og hins vegar öfgahegðunar vegfarenda sem orskavalda umferðarslysa í S. Ástralíu. Þaulrannsakaðar voru læknaskýrslur og dánarvottorð fórnarlamba umferðarslysanna annarsvegar og hins vegar skýrslur og gagnabankar slysarannsóknanefnda. Þrautþjálfaðir fræðimenn leituðu í þessum gögnum að megin orsakavaldi hvers og eins slyss. Þessir megin orsakavaldar voru síðan flokkaðir samkvæmt tiltekinni skilgreiningu.
Niðurstaðan er í stórum dráttum sú að í fáum tilfellum þeirra slysa þar sem enginn lét lífið reyndist orsökin vera glæfra- eða ofsaakstur (3% í þéttbýli, 9% í dreifbýli). Í dauðaslysatilfellunum varð niðurstaðan sú að 57% slysanna mætti rekja beint til vondrar hönnunar umferðarmannvirkjanna eða –system failures, eins og það er nefnt.
Lisa Wundersitz segir þetta skýra vísbendingu um að endurbæta þurfi vegina sjálfa og öryggisþætti eins og vegaxlir, vegakanta og vegrið. Sjálfsagt sé að ætlast til þess að veghaldarar og yfirvöld hugi miklu betur að öryggisþáttum veganna svo að einmitt vegirnir og umferðarmannvirkin verði miklu virkari og betur í stakk búin til að draga stórlega úr afleiðingum mistaka og óhappa og verndi vegfarendur. Þetta ætti að standa yfirvöldum og veghöldurum nær en að einblína stöðugt á og reyna að hindra öfgahegðunina sem sé ljóslega mun minni orsakavaldur slysanna en látið sé í veðri vaka. Hún segir ennfremur að slík stefnubreyting sé líkleg til að fækka stórlega umferðarslysum í S. Ástralíu.