Meira en 50% samdráttur umferðar um Mýrdalssand
Umferðin á Hringveginum í mars dróst gríðarlega mikið saman frá sama mánuði í fyrra eða um 24,4 prósent. Mestur varð samdrátturinn á Mýrdalssandi en þar dróst hún saman um heil 52,3 prósent. Þar hafði straumur ferðamanna verið hvað mestur og aukingin árin á undan líka gríðarmikil. Þetta eru augljós áhrif Covid-19 og hruns í ferðamennskunni.
Enn meiri samdráttur varð í umferð, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, en varð á höfuðborgarsvæðinu í mars mánuði eða 24,4% samdráttur. Þessi samdráttur núna kemur ofan í mikinn samdrátt sem varð á Hringveginum á síðasta ári í mars. Umferð á öllum svæðum dregst mikið saman en mest dregst umferðin saman yfir lykilsnið á Norðurlandi eða um tæplega 36%. Minnst dregst umferðin saman á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 18,5%.
Samdrátturinn í einstaka sniðum er allt frá 16,6% (snið við Úlfarsfell) og upp í 52,3% (snið á Mýrdalssandi). Þannig að hér er um gríðarlegt fall að ræða í umferð og virðist vera mest á þeim stöðum sem áður höfðu aukist hvað mest meðan ferðamannaþenslan var hvað mest.
Umferðin í mars reyndist vera u.þ.b. mitt á milli marsumferðar árið 2015 og 2016.