Meira um að Íslendingar óski eftir aðstoð
,,Á sumrin hafi verið talsvert að gera við að hjálpa erlendum ferðamönnum samkvæmt beiðnum systurfélaga FÍB erlendis. Núna er breyting á því. Talsvert meira er að gera úti á landi við dekkjaskipti, start og flutning bíla Íslendinga en fáar beiðnir berast um aðstoð við erlenda ferðamenn,“ segir Hjörtur Gunnar Jóhannesson, starfsmaður við FÍB Aðstoð, í samtali við Morgunblðið í dag.
Hjörtur segir meira hefur verið að gera í aðstoð FÍB við félagsmenn á götum bæja og á vegum úti í sumar en áður. Meira hefur verið um beiðnir um aðstoð úti á landi en á þessum tíma á undanförnum árum. Það tengist væntanlega miklum ferðalögum Íslendinga um eigið land í sumar.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda veitir félagsmönnum sínum endurgjaldslausa aðstoð ef bílar bila. Hún felst í því að gefa start, koma með bensín, skipta um dekk og draga bíla sem bila eða rafbíla sem verða rafmagnslausir. Allt miðast þetta við þjónustusvæði FÍBaðstoðar sem eru liðlega 30 á landinu.
Einnig er veitt ráðgjöf og aðstoð í síma ef bílarnir bila utan þjónustusvæða. Fáir erlendir ferðamenn á ferli Hjörtur segir að mest sé að gera á höfuðborgarsvæðinu og í stærri bæjum úti á landi.
Nefnir hann sem dæmi að aðstoð við erlenda ökumenn hafi oft verið veitt í 30-40 skipti á mánuði á sumrin en það sem af er sumri hafi aðeins komið fjórar slíkar beiðnir. Þetta er í samræmi við þróunina, afar fáir erlendir ferðamenn eru á landinu miðað við það sem verið hefur á þessum tíma á undanförnum árum.
Dæmisaga úr aðstoð sem tók á annan sólarhring
Seint að kvöldi mánudagsins 29. júlí í fyrra barst FÍB beiðni um aðstoð frá ANWB systurfélagi FÍB í Hollandi vegna bilaðs eldri Land Rover bifreiðar á hálendisvegi norðan Vatnajökuls. Haft var samband við samstarfsaðila FÍB Aðstoðar á Akureyri, Car-X, sem gat farið í verkið árla daginn eftir.
Þjónustufulltrúi fór af stað frá Akureyri kl. 8 þriðjudaginn 30. júlí á öflugum fjórhjóladrifsbíl með bílakerru í eftirdragi. Í samræmi við uppgefin staðsetningahnit í hjálparbeiðni Hollendinganna fór aðstoðarmaðurinn um Möðrudal, upp að Öskju um veg 910. Ekki hafði náðst um síma samband við Land Rover fólkið þannig að allar upplýsingar um staðsetningu komu frá stjórnstöð í Hollandi.
Staðsetningarhnit stóðust ekki og aðstoðarbíllinn fór víða um torfæra slóða í nágrenni við áætlaða staðsetningu. Það leið á daginn og það gekk á eldsneytisbirgir. Nú náðist í fólkið sem var í vandræðum og hægt var að staðsetja þau nánar. Ljóst var þá að vegna erfiðrar færðar var ekki hægt að nálgast Land Roverinn með bílakerruna. Gerð var tilraun til að fá nánari bilanalýsingu um síma og hvort mögulegt væri að draga bílinn einhvern spöl. Eigandi bílsins var ekki viss en taldi það hugsanlegt.
Þessar upplýsingar frá Hollendingunum á bilaða bílnum upplýstu aðstoðarmennina um að ekki væri hægt að nálgast bilaða bílinn með bílaflutningakerru frá þeim stað sem aðstoðarbíllinn var. Þeim bíl var stefnt að Mývatnssveit um Dyngjuvalladal, þar sem töluverð ófærð var. Ákveðið var að senda annan mann frá Akureyri til móts við fyrsta aðstoðarmanninn og tók sá seinni við aðstoðarbílnum við Goðafoss.
Nýkomni aðstoðarmaðurinn fór um Bárðardal inn á Sprengisandsleið að Nýjadal. Þaðan hélt hann um Dyngjufjallaleið svo langt sem hann komst með kerru. Kerran var skilin eftir og aðstoðarmaðurinn hélt áfram nokkra kílómetra að fólkinu á Land Rovernum. Nú var komin fram á afararnótt miðvikudagsins 31. júlí og í ljós kom að bilunin tengdist m.a. framdrifi Roversins. Aðstoðarmaðurinn aftengdi framdrifið þannig að bíllinn var aksturshæfur með drif á einum öxli. Þegar klukkan var um hálf-þrjú um nóttina fól aðstoðarmaðurinn ferðamanninum að aka hjáparbílnum en ók sjálfur hollenska bílnum að bílakerrunni.
Þar sem vegir voru víða torfærir var á köflum farið á hraða snigilsins. Aðstoðarbíllinn með Land Roverinn á kerrunni í eftirdragi og ferðalangana kom til Akureyrar um klukkan 11 morguninn eftir. Aðgerðin hafði þá staðið yfir í á annan sólarhring. Land Roverinn fór til frekari viðgerða á verkstæði og ferðalangarnir hvíldu sig.