Meiri háttar breytingar á fjármögnun samgöngukerfisins
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag skrifar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, um veggjöld. Í upphafi greinarinnar segir Björn Leví að áður en Alþingi fór í frí yfir jól og áramót voru smádeilur um afdrif samgönguáætlunar. Stjórnarmeirihlutinn vildi drífa samgönguáætlun í gegn sem hefði svo sem alveg getað gengið eftir þar sem búið var að fara yfir málið með mörgum umsagnaraðilum og kíkja í flest horn.
,,Í vikunni áður en það átti að klára að afgreiða málið gerir stjórnarmeirihlutinn grundvallarbreytingu á forsendum áætlunarinnar. Þá er tilkynnt að samgönguáætlun verði uppfærð á næsta ári og breytingarnar verði fjármagnaðar með veggjöldum á öllum leiðum út af höfuðborgarsvæðinu og á nokkrum öðrum stöðum til viðbótar.
„Það er nánast undantekningarlaust sem þessi leið hefur verið rædd við menn og hvort þeir gætu hugsað sér að flýta framkvæmdum með því að fara þessa leið,“ sagði Jón Gunnarsson á Alþingi þegar áætlanir meirihlutans um samgönguáætlun voru ræddar. Það er að hluta til rétt, smáútúrsnúningur í þessum orðum eins og pólitíkusum er einum lagið.
Þeir gestir sem komu fyrir nefndina voru almennt ekki á móti því að flýta einstaka framkvæmdum með veggjöldum, þá var oft minnst á Hvalfjarðargöngin sem vel heppnað dæmi og Vaðlaheiðargöng sem dæmi sem gengi líklega ekki upp.“
Í greininni segir Björn Leví að aðalatriðið var að þær forsendur sem stjórnarmeirihlutinn var að leggja til voru miklu meiri en einstakar veggjaldaframkvæmdir. Gjaldtaka í kringum allt höfuðborgarsvæðið og í flestum göngum landsins. Meiri háttar breytingar á fjármögnun samgöngukerfisins, án þess að gefa hagsmunaaðilum, borgurum landsins, tækifæri til þess að gera athugasemd við málið. Það tókst hins vegar að fresta afgreiðslu samgönguáætlunar þangað til í lok janúar.
Það þýðir að þú hefur nú tækifæri til þess að láta skoðun þína í ljós í þessu máli. Það er mjög einfalt að gera. Þú sendir tölvupóst á nefndarsvid@althingi.is með fyrirsögninni: „Umsögn um Samgönguáætlun, mál 172 og 173“, nafninu þínu og athugasemd sem getur þá verið annaðhvort „Ég andmæli áformum um álagningu veggjalda eins og þær koma fram í forsendum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar“ eða „Ég styð áform um álagningu veggjalda eins og þær koma fram í forsendum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar“.
Einnig getur þú farið á vefsíðuna https://sites.google.com/view/veggjold og smellt á annan hvorn takkann sem þar er að finna til þess að auðvelda þér umsögnina.
Björn Leví lýkur greininni með þessu orðum:
,,Við skuldum ansi mikið í uppbyggingu samgöngukerfisins eftir hrunið. Vissulega getum við fjármagnað það með veggjöldum en það eru margar aðrar leiðir til þess líka. Sem dæmi þá kosta þær framkvæmdir sem stjórnarmeirihlutinn býst við að fara í um 5 milljarða á ári. Á sama tíma lækkar stjórnin skatta um tæpa 12 milljarða. Það væri auðvelt að lækka skatta aðeins minna og fjármagna samgönguskuldina. Hvað finnst þér?"