Meiri Norðursjávarolía en gert hefur verið ráð fyrir

The image “http://www.fib.is/myndir/Oliuborpallur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Mun meiri nýtanleg olía og gas er á danska olíuvinnslusvæðinu í Norðursjó heldur en gert hefur verið ráð fyrir fram að þessu. Hún mun endast Dönnum minnst tíu árum lengur en fyrri áætlanir hafa reiknað með að mati orkustofnunar Danmerkur. Frá þessu var greint í dagblaðinu Politiken fyrir helgina.
Eldri áætlanir gerðu ráð fyrir því að olíuna á danska Norðursjávarsvæðinu þryti árið 2013. -Nú er svo komið að bæði vinnslutæknin leyfir mun betri nýtingu þeirra olíulinda sem þegar hafa fundist auk þess sem nýjar eru ýmist fundnar eða taldar líklegar til að finnast- segir Søren Enevoldsen deildarstjóri hjá dönsku orkustofnuninni við Politiken. Hann segir að í nýjustu spám stofnunarinnar sé gert ráð fyrir að Danir verði í það minnsta sjálfbærir um olíu og gas næstu 20 árin og trúlega þó lengur.
Olíuvinnslutæknin verður sífellt betri og sem dæmi má nefna að upp úr 1970 var talið gott að geta nýtt 5% olíunnar í hverri olíulind. Nú eru um 23% olíunnar vinnanleg og líklegt þykir að á næstu árum nálgist vinnslugetan 30%. 
Þessi nýja olíuorkuspá mun gefa ríkissjóði Dana vel í aðra hönd, eða minnst 250 milljarða danskra króna, gangi hún eftir. Það er jafnvirði um helmings erlendra skulda ríkisins miðað við olíuverð dagsins í dag. Þessi upphæð myndi duga til þess að fjármagna allar eftirlaunakröfur Dana næstu tíu árin. Talsmaður danska alþýðusambandsins segir að menn verði að hugsa vel um hvernig þessum fjármunum verði eytt og að óskynsamlegt sé að nota þá í skattalækkanir. Undir það tekur varaformaður fjárlaganefndar danska þingsins, Flemming Damgaard Larsen frá Venstre (Framsókn).