Flestir telja farsímanotkun hættulega
Í viðhorfskönnun sem Samgöngustofa gerði í lok síðasta árs kemur fram að svarendur telja hverskonar notkun farsíma á meðan á akstri stendur hættulega. Í könnuninni kemur einnig fram að 53% aðspurðra telja sig sem ökumenn verða fyrir mestri truflun í umferðinni af völdum farsímanotkunar annarra ökumanna. Þótt allir aðspurðir segi það hættulegt að skrifa skilaboð á farsíma á meðan á akstri stendur viðurkenna um 25% að þeir viðhafi slíka hegðun. Það er þó gleðiefni að þetta eru umtalsvert færri en mældist árið á undan en þá sögðust 33% vera sek um þetta.
Nú hefur Samgöngustofa, Sjóvá og Strætó hrundið af stað nýju Höldum fókus átaki sem sjá má hér. Í þessu átaki er lögð áhersla á þær áhættur sem við tökum í lífinu, sem sumar eru sannarlega þess virði að taka. Það er hinsvegar ljóst að það er aldrei áhættunnar virði að nota farsíma eða annarskonar snjalltæki á meðan á akstri stendur. Um það vitna alvarleg slys og truflun en í Bandaríkjunum er talið að 25% allra bílslysa verði að völdum notkunar farsíma og það er engin ástæða til að ætla að ástandið sé betra hér á landi. Það er því ljóst að skilaboðin og samtalið getur aldrei verið þess virði að taka áhættuna.
Í Höldum fókus tengist fólk herferðinni með Instagram reikningi sínum, en í samstarfi við Google er notuð gervigreind til að sérsníða sögulínu að lífstíl hvers og eins. Þannig fær notandinn upp sögu sem tengist vináttu, fjölskyldu, gæludýrum eða ferðalögum, allt eftir því hvað er mest áberandi í hans „samfélagsmiðlasjálfi“. Myndir notandans blandast síðan inn í sérsniðna sögulínu og er upplifun hvers og eins því einstök. Framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan sá um hugmyndavinnu og framkvæmd verkefnisins og er óhætt að lofa sterkum. Verkefnið uppfyllir öll skilyrði um persónuvernd og eru engar upplýsingar af reikningi notandans varðveittar eða miðlað áfram.
Þetta er fjórða skiptið sem Höldum fókus átakinu er hrundið af stað en það hefur ætíð vakið mikla athygli og sýnt mælanlegan árangur í könnunum sem Samgöngustofa hefur gert. Verkefnið á Íslandsmet í deilingu á samfélagsmiðlum en fyrsta átakinu var deilt u.þ.b. 36.000sinnum á Facebook. Hluti fyrri verkefna Höldum fókus hafa verið notaður erlendis, og hafa nokkur lönd lýst yfir áhuga á að setja upp sambærilega herferð og þessa.