Mengunarmörk fyrir garðsláttuvélar

http://www.fib.is/myndir/Gardslattuvel.jpg

Bandaríska hollustuverndarstofnunin EPA ætlar ekki í náinni framtíð að einblína á að herða reglur um útblástur bíla, heldur einnig snúa sér að bæði garðsláttuvélum og bátamótorum. Nýjar og strangar reglur um mengun smávéla á að taka gildi í Bandaríkjunum á árunum 2010 og 2011. Talið er að garðsláttuvélar og önnur mótorknúin frístundatæki gefi frá sér að minnsta kosti jafn mikið af skaðlegum útblástursefnnum og allur bílafloti Bandaríkjamanna. 

EPA (Environmental Protection Agency) lét rannsaka útblástur frá mótorknúnum frístundatækjum eins og garðsláttuvélum, bátamótorum, bensínrafstöðvum o.fl. slíku í fyrsta sinn árið 1990 og gaf út skýrslu árið 1991 um rannsóknina. Á óvart kom hversu mikil mengun var frá smávélunum. Hún væri nokkurnveginn jafn mikil og frá öllum bílaflota Bandaríkjamanna samanlögðum yfir árið. Tvígengisvélarnar voru taldar afkastamestar í menguninni. Sem dæmi um það jafngilti mengun frá garðsláttuvél með tvígengismótor sem notuð væri til að slá grasblettinn framan við venjulegt einbýlishús einu sinni í viku sex mánuði ársins, því að keyra meðalstóran heimilisbíl til tunglsins og til baka.

Þá tæpu tvo áratugi sem liðnir eru frá því að þessi rannsókn var gerð, hafa sífellt strangari mengunarvarnakröfur verið gerðar til bíla, ekki síst hverskonar vörubíla sem áður voru undanþegnir öllu slíku. Þá er stöðugt verið að herða kröfur til bílaframleiðenda um sparneytnari vélar í fólksbíla. Svonefndar CAFÉ reglur (Corporate Average Fuel Economy) hafa verið settar. Þær eiga að taka gildi í áföngum fram til 2020. Reglurnar ná ekki bara til fólksbíla heldur einnig pallbíla og jeppa, sem lengstum hafa verið undanþegnir flestum takmörkunum á eyðslu og útblæstri. Samkvæmt CAFÉ reglunum skal meðaleyðsla bílaflota Bandaríkjamanna minnka í áföngum fram til 2020. Þá á hún að vera komin niður í 6,72 l á hundraðið að meðaltali.

Fram til ársins 2010 verða allir nýir bátar og aðrir vatnafarkostir eins og sjóþotur, hvort heldur eru  með utanborðsmótor eða innbyggðum mótor að upfylla ákveðnar mengunarkröfur. Frá árinu 2011 verða allar garðsláttuvélar og önnur vélknúin garðvinnutæki með allt að 25 ha. mótor sömuleiðis að uppfylla ákveðnar mengunarkröfur. Áfram má fólk þó nota gömlu garðsláttuvélarnar sínar og tækin, en öll ný tæki sem seld verða eftir árin 2010 og 2011 skulu uppfylla útblástursmörk EPA. Sérfræðingar stofnunarinnar telja að reglurnar muni leiða til mun sparneytnari smávéla og þegar þær hafa að fullu tekið gildi muni Bandaríkjamenn spara um einn milljarð bensínlítra á ári á smávélar sínar.