Menn hljóta að hlusta á samtök 18.000 fjölskyldubifreiðaeigenda
,,Við leggjum áherslu á það að stíga mjög varlega til jarðar varðandi hugmyndir um vegtolla sem eru því miður allt of kostnaðarsamar hugmyndir og þetta rennur jú allt upp úr sama vasanum. Það er eðlilegt að umferðin borgi þann kostnað sem af henni hlýst en við höfum lagt áherslu á það að það er verið að innheimta í sköttum og gjöldum af bílum um það bil 80 milljarða á ári af hálfu hins opinbera,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í viðtali við Morgunblaðið um helgina.
Runólfur segir að aðeins hluti af þeim fjármunum er varið til samgöngumála svo það þarf alltaf að skoða þetta í heildarmyndinni. Runólfur segir ennfremur að FÍB fékk ekki að fylgjast með ferli samkomulagsins þrátt fyrir óskir um slíkt.
„Við óskuðum eftir því að fá að kíkja í pakkann á fyrri stigum þegar það var farið að leka út að það væri eitthvað í burðarliðnum. Bæði óskuðum við eftir því við samgönguráðuneytið og sveitarstjórnaraðila svo við erum í sjálfu sér bara að sjá þessa pappíra fyrst sama dag og skrifað var undir og svo fengum við frekari kynningu sl.föstudag,“ segir Runólfur.
Hann er þó vongóður um að stjórnvöld hlusti á samtökin. „Menn hljóta að hlusta á samtök 18.000 fjölskyldubifreiðaeigenda sem eru auðvitað fulltrúar notenda. Fram að þessu hafa menn einhvern veginn ekki haft þann hóp í huga við gerð þessara lausna.“
Viðtalið við Runólf í heild sinni má nálgast hér.