Mercedes Benz 125 ára
Á laugardaginn var hófust mikil hátíðahöld í Stuttgart í tilefni af því að þá voru 125 ár frá því að Karl Benz fór í fyrsta bíltúrinn á sínum fyrsta bíl. Hátíðahöldin munu standa út þetta ár. Margt stórmennið var viðstatt opnunarhátíðina á laugardaginn, þeirra á meðal Angela Merkel kanslari Þýskalands sem var heiðursgestur.
Benz fyrirtækið heitir reyndar Daimler AG en fyrir 125 árum voru þeir Gottlieb Daimler og Karl Benz báðir að fást við það sama, að reyna að byggja nothæfa vagna sem keyrðu fyrir eigin vélarafli og ekki þurfti að spenna hesta fyrir. Þar sem ekki voru nema um 100 kílómetrar í milli þeirra, fréttu þeir fljótlega hvor af öðrum og sáu skynsemina í því sameina krafta sína.
Mercedes-Benz safnið í Stuttgart verður miðdepill hátíðahaldanna og það verða ekki bara Benz bílar í fortíð og framtíð sem þau verða látin snúast um, heldur verða ýmsir listviðburðir einnig í boði, t.d. myndlistarsýningin ART 125. Sýningin mun standa frá maí-september. Synd verða 160 nútímalistaverk eftir 80 listamenn, m.a. Andy Warhol, Bertrand Lavier, Robert Longo, Sylvie Fleury og Vincent Szarek.
Þá verður haldið sérstakt Mercedes rally sem standa mun í 125 dagar. Það fer þannig fram að þrír rafbílar með efnarafal fara út í heim til að sýna og sanna að hægt sé að ferðast án þess að menga nánast nokkurn skapaðan hlut.