Mercedes-Benz stefnir á risa hraðhleðslukerfi
Meira en áratug eftir að Tesla opnaði sína fyrstu ofurhleðslustöð í því sem nú er stærsta hraðhleðslukerfi heims fyrir rafbíla hefur Mercedes-Benz ákveðið að gera eitthvað svipað. Í fyrirlestri á CES vörusýningunni í Las Vegas í síðustu viku talaði sænski forstjórinn Ola Källenius um áætlanir fyrirtækisins um að byggja upp alþjóðlegt net 10.000 hraðhleðslutækja, sem verða knúin endurnýjanlegri orku.
Fyrstu hleðslustöðvarnar verða settar upp í Bandaríkjunum og Kanada á næsta ári, áður en netið stækkar til Evrópu, Asíu og annarra mikilvægra markaða til loka áratugarins. Hleðslutækin verða opin fyrir rafbíla frá öllum tegundum strax í upphafi, lofar Källenius. Þetta aðgreinir þá frá Tesla, en hleðslunetið var lengi eingöngu fyrir eigin bíla fyrirtækisins áður en það opnaði það að hluta fyrir öðrum vörumerkjum.
,,Viðskiptavinir okkar eiga skilið sannfærandi hleðsluupplifun sem auðveldar rafbílaeign og langar ferðir. Við munum ekki bara bíða eftir því að það gerist,“ segir Ola Källenius.
Mercedes mun leggja meira en einn milljarð evra í verkefnið - peninga sem Källenius telur að fyrirtækið muni geta fengið til baka þegar fjárfestingarstiginu er lokið. Mercedes ætlar að selja eingöngu rafbíla eftir árið 2030, á þeim stöðum þar sem markaðurinn er tilbúinn fyrir það.