Mercedes Grand Sports Tourer í framleiðslu
29.03.2005
R-Benzinn - á Bandaríkjamarkað strax í haust og Evrópumarkað með vorinu 2006.
Mercedes Benz hefur síðan 2002 sýnt á alþjóðlegum bílasýningum frumgerð stórs fjölnotabíls sem kallaður hefur verið Grand Sports Tourer eða R-línan. Hugsunin með honum hefur verið að skapa rúmgóðan og þægilegan bíl til langferða sem jafnframt hefur góða og sportlega aksturseiginleika. Nú er þessi nýi bíll orðinn að veruleika hjá Benz.
Mercedes Benz R verður smíðaður í Bandaríkjunum og fyrstu fjöldaframleiddu eintökin eru nú til sýnis á bílasýningunni í New York. Thomas Weber þróunarstjóri Mercedes afhjúpaði bílinn á New York sýningunni á miðvikudaginn var. Hann sagði að verkfræðingar Mercedes hefðu fengið það verkefni að hanna frá grunni rúmgóðan bíl með bestu aksturseiginleika sem hugsanlegir eru í bílum yfirleitt, hvort heldur sem um væri að ræða fólksbíl, skutbíl, jeppling eða fjölnotabíl. Þeir hefðu ekki fengið neina fyrirmynd til að líkja eftir enda hefði markmiðið verið að smíða einstakan bíl - bíl í sérflokki.
R-Benzinn er stór vagn; 516 sm langur og með sætum fyrir allt að sex manns og mikið fótarými. Hægt er að renna stólunum í mið-sætaröðinni 7 sm aftur. Þegar það er gert verður fótarýmið fram að framsæti rétt tæpur metri. Hægt er síðan að fella alla fjóra stólana aftur í bílnum niður í gólfið. Við það myndast hleðslurými upp á 2.057 lítra. Lengd hleðslugólfsins er þá 2,2 metrar.
En R-línan er fyrst og fremst hugsuð sem lúxus-ferðabíll en ekki fólks/vöruflutningabíll. Farþegasætin eru stillanleg á alla hugsanlega vegu og hita/loftræstikerfið er mjög fullkomið og stillanlegt við sérhvert sæti bílsins. Fullkomið hljómkerfi er í bílnum og fáanlegt er DVD myndkerfi með sjónvarpsskermum í hnakkapúðum framsætanna.
En það er ekki einungis hugað að þægindum farþega heldur líka ökumannsins. Vinnuumhverfi hans er þrauthugsað með tilliti til þæginda. Gírveljari er á stýrisleggnum en auk þess má skipta um gíra með tökkum á stýrishjólinu sjálfu.
R-línan verður framleidd í verksmiðju Mercedes í Alabama samhliða M-jeppanum en vél- og tæknibúnaður verður svipaður í báðum þessum gerðum. Þannig er sítengda fjórhjóladrifið hið sama og sömuleiðis loftpúðafjörðunin. Hún er þeim eiginleikum gædd að fjöðrunin stífnar eftir því sem hraðar er ekið auk þess sem stífleiki hennar er stillanlegur. Þá lækkar bíllinn sömuleiðis á fjöðrunum þegar hraðinn fer yfir 120 km/klst. Hægt er svo að stilla hæðina þannig að allt að 50 sm verða undir lægsta punkt bílsins þegar ekið er um óslétta vegi, t.d. fjallvegi eða í þúfum.
Allar gerðir Benz R verða með sjö hraða gírkassa sem bæði getur verið hand- eða sjálfskiptur. Vélarnar í boði eru V6 eða V8 strokka bensínvélar, 224-306 hö. Með öflugustu vélinni nær þessi stóri bíll hundraðinu úr kyrrstöðu á 6,9 sekúndum og hámarkshraðinn er 240 km. Dísilgerðin nefnist 320 Cdi. Hámarksvinnsla hennar er 510 Newtonmetrar sem næst strax við 1600 sn./mín. Eyðsla hennar er einungis 8,9 lítrar á hundraðið af dísilolíu í blönduðum akstri.
Mercedes Benz R línan kemur á Bandaríkjamarkað með haustinu en í byrjun næsta árs á Evrópumarkað. Samkvæmt frétt Auto Motor & Sport mun verðið verða á sama róli og á hinni fjórhjóladrifnu skutbílsútgáfu E-línunnar. Það þýðir að líklegt verð hér á landi á þessum eðalvagni verður frá svona 6 milljónum króna og upp úr.