Merki um aukna umferð í fyrsta sinn í langan tíma
Umferðin í júní á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,2 prósent sem kom á óvart en þetta er fyrsti mánuður þessa árs þar sem umferðin í mánuðinum er meiri en umferðin í sama mánuði ári fyrr. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
Athygli vekur að það er aukin umferð á mánudögum sem stendur undir allri aukningunni. Skýringar á aukinni umferð á mánudögum eru ekki augljósar.
Nokkuð óvænt reyndist umferðin í nýliðnum júní 1,2% meiri en í sama mánuði á síðasta ári, mest jókst umferðin í mælisniði á Reykjanesbraut eða um 3,2% en 1,6% samdráttur mældist í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi. Aðeins í júní 2018 hefur mælst meiri umferð um lykilmælisniðin þrjú.
Svo virðist sem umferð á mánudögum, í nýliðnum mánuði hafi tekið stórt stökk uppávið því hún mældist tæpum 12% meiri en á mánudögum í sama mánuði fyrir ári síðan. Mánudagar er jafnframt eini vikudagur mánaðarins sem sýnir aukningu á milli ára í júní þ.a.l. ber hann uppi umrædda aukningu. Athygli vekur að aukningin á mánudögum er lang mest í öllum sniðum.
Fram kemur að reiknilíkan umferðardeildar eigi von um rúmlega 9% samdrætti í umferð á höfuðborgarsvæðinu, fyrir árið í heild. Ekki er ósennilegt að samdrátturinn í umferðinni verði svipaður samdrætti í hagvexti ársins þar sem gert er ráð fyrir um 8% samdrætti í ár, samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Seðlabankans.