Mest seldi bíll sögunnar
Toyota Corolla kom fyrst á markað árið 1966. Corolla og varð strax vinsæll bíll, enda settu Japanir, ekki síst Toyota með Corollunni og Datsun á þessum tíma, nýjan „standard“ fyrir smábíla. Japönsku bílarnir voru einfaldlega betri en þess tíma sambærilegir bílar. Þeir biluðu minna og entust betur enda þótt þeir væru ódýrari en flestir aðrir evrópskir og bandarískir bílar. Þeim standard hafa þeir að mestu haldið alla tíð síðan.
Frá 1966 hefur Toyota Corolla selst sem heitar lummur og nú er svo komið að útgengnir eru 40 milljón Toyota Corolla bílar. Þar með er Toyota Corolla orðin söluhæsti bíll bílasögunnar og búin að slá út pallbílinn Ford F-150 sem lengi hefur verið sá mest seldi. Toyota bílafyrirtækið var stofnað árið 1934. Síðan þá hefur Toyota selt meir en 200 milljón bíla.
En jafnfram því að eiga nú heimsmetið í sölu einnar bílgerðar hefur Toyota endurheimt sæti sitt sem stærsti bílaframleiðandi veraldar. Efsta sætinu tapaði Toyota til General Motors í kjölfar flóðbylgjunnar og náttúruhamfaranna í Japan fyrir einu og hálfu ári. Eyðileggingin var gríðarleg en aðeins ári síðar var að mestu búið að endurbyggja verksmiðjur og lagera sem eyðilögðust í hamförunum.