Mesta rafbílalandið
Í Noregi eru nú á fyrsta vinnudegi nýs árs, rétt rúmlega 10.000 bílar á skrá, sem eru rafknúnir að sumu eða öllu leyti, það er að segja allir bílar sem hægt er að hlaða rafmagni um innstungu. Þetta eru bæði bílar sem knúnir eru eingöngu með rafstraumi, sem og svonefndir tengiltvinnbílar og rafbílar með bensín- eða dísilrafstöð. Þar með er Noregur orðið mesta rafbílaland heims.
Motormagasinet í Svíþjóð greinir frá þessu og segir að í byrjuns nýliðins desembers hafi rafbílarnir verið orðnir 9.647 á skrá. Í lok desember hafi bæst við 435 bílar til viðbótar þannig að sl. föstudag var fjöldinn kominn í 10.082. Alls voru ræplega 5.000 rafhleðslubílar nýskráðir í Noregi á gamla árinu og gert er ráð fyrir því að minnst 10.000 til viðbótar verði nýskráðir á þessu ári.
Formaður samtaka „grænna“ bifreiðaeigenda í Svíþjóð telur þetta vera Norðmönnum mjög til hróss. Skipti frá hefðbundnum bílum yfir í útblásturslausa bíla hafi hvergi gengið hraðar og betur fyrir sig en í Noregi og það sé öðrum þjóðum, ekki síst Svíum, mjög til eftirbreytni. 10 000 rafhleðslubílar sem hverjum um sig er ekið 15 þús. kílómetra á ári minnki CO2 losun frá bílaumferð um 30 þúsund tonn á ári og loftgæði batni að sama skapi og umferðargnýr minnki.
Þótt sænski bílamarkaðurinn sé verulega stærri en sá norski er fjöldi rafbíla þar einungis tíundi hluti norska rafbílaflotans. Það sem norsk stjórnvöld hafa einkum gert til að auðvelda fólki að eignast rafbíla er að fella niður virðisaukaskatt (25%) af þeim, lækkað verulega innflutnings- og skráningargjöld sem og bifreiðagjöld. Þá má aka rafbílum á akreinum sem annars eru eingöngu fyrir almannasamgöngutæki og ekki þarf að borga fyrir að leggja þeim í stæði og ekkert þarf að borga fyrir þá á gjaldskyldum vegum og um borð í ferjum í eigu hins opinbera.