Met-bílasala á Íslandi 2005 – met-samdráttur í Póllandi
16.01.2006
Á árinu 2005 seldust samtals 15.222.939 nýir fólksbílar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er samdráttur um 0,7% miðað við árið á undan. Mest jókst salan á Íslandi og í Lettlandi en mestur samdráttur varð í Póllandi. Af einstökum framleiðendum juku Kia og bandarískframleiddir GM bílar mest hlut sinn hlutfallslega, Kia um 39 prósent og ameríska GM um 45 prósent.
Á Íslandi jókst bílasalan lang mest eða um 52 prósent. Lettland kemur í annað sætið en þar jókst salan um 48 prósent. Danmörk er í þriðja sæti með 20 prósenta aukningu. Bílasala jókst einnig umtalsvert á Írlandi og í Lettlandi.
Í Þýskalandi jókst salan um 1,6 prósent, í Frakklandi um 2,7 og í Svíþjóð um 3,8. Í Póllandi dróst hún hins vegar saman um 26 prósent, um 7 prósent í Grikklandi, 5 prósent í Noregi og í Slóveníu um 4,3 prósent.
Á eftir bandaríska GM og Kia kemur Suzuki sem jók söluna milli ára um 15 prósent, BMW um 11 prósent, Honda um 9,7 prósent, Land Rover með 9,3 prósent og Audi með 9 prósent. Af einstökum gerðum er Renault/Dacia Logan hástökkvari ársins því salan á honum jókst úr 1.800 bílum 2004 í rúmlega 23 þúsund 2005. Samdráttur varð hjá Volvo um 1,9 prósent en aukning hjá Saab um 0,7 prósent. 3,4 prósenta samdráttur varð hjá Ford og 0,7 prósenta samdráttur hjá GM í Evrópu. Mestur samdráttur varð hjá MG Rover, 59,5 prósent, og skal engan undra því fyrirtækið varð gjaldþrota á árinu. Næst mesti samdráttur í einstöku bílmerki varð hjá Jaguar, 22 prósent.
Mikill samdráttur varð einnig hjá Fiat (14 prósent) og Alfa Romeo (17 prósent). Þá varð 8,5 prósenta samdráttur hjá Mazda, 6,3 prósent hjá Nissan en aukning varð hjá öðrum japönskum bílamerkjum. Breytingar hjá nokkrum öðrum bílamerkjum voru þessar: Peugeot-Citroen -2,9%. (-6% hjá Peugeot en +% hjá Citroen). Hyundai +1,5%. Renault -6,6 % en sé Dacia talin með Renault var samdrátturinn ekki nema 5,2%. Volkswagen jók við sig um 3,2 prósent og varð aukning í öllum merkjum samsteypunnar nema Seat sem dróst saman um 5,4 prósent.
0,9 prósenta samdráttur varð hjá DaimlerChrysler. Sala á Mercedes dróst saman um 0,9 prósent, á Chrysler um 4,7 prósent og um 1,2 prósent hjá Smart.