Metangasið best – repjuolían verst
Hvaða lífrænt eldsneyti er best fyrir umhverfið? Vísindamenn við háskólann í Lundi í Svíþjóð hafa nú borið saman ýmsar tegundir lífræns bílaeldsneytis með tilliti til umhverfisáhrifa og komist að því að metangasið er best. Verst er repjuolía sem notuð er á dísilvélar. Þá var etanól (spíri) ekki sem allra bestur heldur, sem kemur nokkuð á óvart.
Allt eyðist sem af er tekið og það gildir vissulega um olíuna. Því er leitað sem aldrei fyrr að öðrum orkugjöfum til að knýja samgöngutæki auk þess að gera farartækin sparneytnari. En nýir orkugjafar þurfa að vera í það minnsta jafn umhverfismildir og hefðbundna eldsneytið er. Þrír vísindamenn við tækniháskólann í Lundi ákváðu að rannsaka þær nýju eldsneytistegundir fyrir ökutæki sem nú eru fáanlegar í Svíþjóð til að fá úr því skorið hver heildar-umhverfisáhrif eldsneytistegundanna eru.
Vísindamennirnir eru Pål Börjesson, Mikael Lantz og Linda Tufvesson hafa nú skilað af sér skýrslu um málið og eru öll umhverfisáhrif eldsneytistegundanna reiknuð inn í dæmið, allt frá upphafi til þess er orkan hefur skilað sér út í hjól bílsins, eða frá brunni til drifhjóls, eins og það er kallað. (Well to wheel). Meginniðurstaðan er sú að metangasið er besta nýeldsneytið (Alternativ energi). Niðurstaðan er í takti við aðra rannsókn sem sagt var frá hér á vef FÍB.
Ef rétt er staðið að framleiðslu á metangasinu þá eru umhverfisáhrif af brennslu þess í bílvélum alls ekki skaðleg umhverfinu að neinu leyti heldur þvert á móti. Ef menn hugsa sér einhverskonar umhverfisskaðastuðul fyrir eldsneytisbruna og að enginn skaði verði ef stuðullinn stendur í hundrað. Því lægra tala undir hundraðinu táknar þá þess meiri umhverfisskaða og því hærri tala yfir hundraðinu táknar að sama skapi jákvæðari umhverfisáhrif. Því má segja að það bæti umhverfið að keyra á metangasinu því að þessi stuðull getur þá farið í 148 hvorki meira né minna.
Skýringin á þessu er að hluta sú að óbrunnið metan er öflug gróðurhúsalofttegund, 25 sinnum öflugri en CO2. Metanið er ágætlega eldfimt og brennur nánast upp til agna þannig að sáralítið af skaðlegum lofttegundum myndast við brunann. Því þarf að brenna metaninu til að það berist ekki út í andrúmsloftið.
Metan myndast í sorpi og hverskonar lífrænum úrgangi og niðurstaða vísindamannanna er sú að heppilegast sé að slíkum úrgangi þurfi að safna saman sem víðast og vinna metan úr honum, t.d. mykju og öðrum húsdýraáburði í stað þess að láta fjóshauginn bara standa og gefa frá sér metan engum til gagns en umhverfinu til tjóns. Sama máli gegni um ýmsan úrgang frá iðnaði, ekki síst trjáiðnaðinum í Svíþjóð.
Neðst á þessum umhverfisáhrifalista ný-eldsneytisins hafnar repjuolían (RME) með umhverfisskaðastuðulinn 68. Etanólið er lítilsháttar skárra en stuðultala þess er 71.
Hægt er að framleiða etanól með ýmsu móti. Sé það ekki unnið úr lífrænum úrgangi heldur úr sykurrófum kemur það ekki svo illa út því að það fær stuðultöluna 80 og 79 ef það er unnið úr sykurreyr. En að rækta sykurrófur á ökrum Svíþjóðar til að búa til bílaeldsneyti þykir vísindamönnunum ekki góð latína því að akurlendið myndi ekki geta annað eldsneytiseftirspurninni.
Hægt er að hlaða hér niður skýrslunni sem pdf-skjali