Metangasið ekki bara gott, heldur frábært
Vísindamenn við tækniháskólann í Lundi í Svíþjóð hafa rannsakað áhrif metangass á umhverfið. Niðurstaðan er sú að notkun þess er mun betri fyrir umhverfið en áður hefur verið haldið. Með smávægilegum endurbótum gæti gasnotkunin á bíla ekki einungis dregið úr útblæstri gróðurhúsalofts, heldur beinlínis bætt andrúmsloftið.
Niðurstaðan er semsé sú að metangasið sé umhverfismildasta eldsneytið á bílana sem fyrirfinnst. Raunar má segja að íslenski löggjafinn hafi um nokkurt árabil verið þessarar skoðunar því að engin veggjöld eru rukkuð af metangasi á bíla og metanknúnir bílar hafa um árabil verið undanþegnir vörugjöldum við innflutning, eins og raunar aðrir bílar sem nýta innlenda orkugjafa. Lög um þetta hafa um árabil gilt í eitt ár í einu og framlengd um hver áramót.
Metangasbílar hafa einnig notið skattfríðinda í Svíþjóð og þar og annarsstaðar í Evrópu kallast metangasið Eco-Fuel. Gasbílar eru nú svo vinsælir í Svíþjóð að menn hafa vart undan að safna saman gasinu á sorpstöðvum og haughúsum Svíaríkis, hreinsa það og koma því á sölugeyma. Í Stokkhólmi ekur mikill fjöldi leigubíla á metani og fyrirtæki sem reka bílaflota og vilja sýna umhverfismildi sína í verki, knýja bíla sína áfram á metani.
Hér á Íslandi eru fáeinir metanbílar í gangi en færri en búast mætti við miðað við þau fríðindi að geta keypt tollfrjálsan bíl og ekið honum um án þess að greiða veggjöld og skatta af eldsneytinu eins og af bensíni og dísilolíu. En gallinn er bara sá að metan er einungis fáanlegt á einum stað á Íslandi, Á Bíldshöfða í Reykjavík og verður senn fáanlegt í Hafnarfirði einnig. Metanið er því ekki raunverulegur valkostur hér á landi, enn að minnsta kosti.
En hversu mjög er þá metanið betra en annað bílaeldsneyti? Almennt er sagt að útblástur óæskilegra lofttegunda frá vélum sem ganga á metani sé 80 prósentum minni en ef vélin gengur á bensíni. En vísindamennirnir í Lundi hafa nú mælt og vegið útblásturinn á Skáni að beiðni sænskra orkumálayfirvalda til að komast að því hvað nákvæmlega útblásturinn er mikill og hver umhverfisáhrif hans eru. Niðurstaðan er sú að vondu lofttegundirnar eru ekki 80 prósent betri heldur 95 prósent, hvorki meira né minna.
Mikael Lantz doktorsnemi á sviði umhverfismildra orkukerfa við tækniháskólann í Lundi vann að rannsókninni. Hann segir að allt metangasferlið hafi verið skoðað, frá sorpsöfnun, vinnslu og gasframleiðslu til nýtingar og útblásturs. Inn í útreikningunum væri reiknað með bæði beinum og óbeinum útblæstri í pöllu ferlinu. Það sem væri nýtt í rannsókninni sé að í henni sé tekið tillit til þátta sem aldrei hafi áður verið teknir með í reikninginn, t.d. munurinn á því að framleiða lífrænan áburð úr sorpinu sem myndaði metanið og að framleiða tilbúinn áburð með hefðbundnum aðferðum. Ennfremur hafi raunverulegur metanútblástur frá áburðarframleiðslu verið mældur í stað þess að reikna hann út frá staðaltölum eins og venjan hefur verið hingað til í útreikningum af þessu tagi.
En þar með er ekki öll sagan sögð, því að vísindamennirnir könnuðu einnig hvað hægt væri að gera til að auka nýtnina í framleiðslunni á metangasinu. Í ljós kom að með tiltölulega einföldum og ódýrum endurbótum má ná allt að 120 prósent minni óæskilegum útblæstri sem þá þýðir að metanið sem knýr bílvélina er eiginlega farið að bæta andrúmsloftið. Hægt er að fá nánari útlistun á þessu í skýrslunni sjálfri.