MG mun brátt aftur upp rísa

http://www.fib.is/myndir/MG-TF.jpg
MG-TF.

Fljótlega hefst á ný bílaframleiðsla í hinum sögufrægu MG verksmiðjum í Longbridge í Vestur-Miðlöndum í Englandi eftir tveggja ára hlé. MG-Rover eins og fyrirtækið hét undir það síðasta fór á hausinn vorið 2005. Kínverska ríkisfyrirtækið Nanjing Automobile Corporation keypti að lokum þrotabúið og er nú að hefja framleiðslu á ný á sportbílnum MG TF. Ekki mun ætlunin að byrja aftur að framleiða fólksbíla eins og City-Rover í Longbridge að sinni. En í frétt frá Kínverjunum segir að eigendurnir vilji endurlífga, varðveita og þróa áfram MG bíla í Bretlandi.

Eftir að Nanjing Automobile Corporation eða NAC eignaðist þrotabú MG-Rover var mikið af innviðum verksmiðjanna flutt í nýja bílaverksmiðju fyrirtækisins í Pukou í Nanjing héraði í Kína. Þar á reyndar stór hluti framleiðslunnar á MG TF sportbílnum að fara fram en lokasamsetning á öllum bílum með hægrihandarstýri mun fara fram í Longbridge. Ætlunin er að markaðssetja MG-TF bílinn á ný eins og áður, eða í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum.

Þessi tíðindi hafa glatt unnendur breskra sportbíla og unnendur MG ekki síst. MG kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1924 og er skammstöfun fyrir Morris Garages. Morris Garages var upphaflega nafn á Morris-bílasölufyrirtæki í Oxford sem tók upp á því að breyta Morris bílum og byggja sportbíla með vélum og tæknibúnaði frá Morris. Kunnastir þessara bíla urðu hinir opnu tveggja sæta sportbílar, ekki síst sú gerð sem nefndist MGB. sem þykir afar fallegur og er eftirsóttur meðal fornbílamanna víða.

Nokkrir MGB bílar eru til hér á Íslandi og fyrir fáum árum kom hingað til lands í hópferð með Norrönu heill klúbbur breskra MG eigenda. Þeir fóru hringinn í kring um landið og vöktu bílarnir talsverða athygli þar sem þeir komu.
http://www.fib.is/myndir/MG.jpg