MG og Austin-Healey lifna á ný?
17.05.2005
Austin Healey er fornfrægt sportbílamerki. Bíllinn á myndinni er af árgerð 1967.
Pricewaterhouse Coopers í Bretlandi sem sér um þrotabú MG-Rover hefur gefið upp mestalla von um að hægt verði að halda áfram bílaframleiðslunni með sama hætti og hún var fyrir gjaldþrotið í síðasta mánuði. Um tíma voru aðilar frá Rússlandi og Íran í viðræðum við stjórn þrotabúsins um að yfirtaka alla starfsemina. Þeir hafa nú dregið sig í hlé.
En samhliða þessum viðræðum hefur félag í eigu fyrrverandi stjórnenda hjá MG Rover átt viðræður um að yfirtaka sportbílaframleiðsluna og gera MG-Rover í Longbridge að hreinni sportbílaverksmiðju. Hugmynd þessara aðilar er sú að smíða fremur ódýran sportbíl undir nafninu MG-TF og annan dýrari undir hinu fornfræga nafni Austin Healey. Samkvæmt áætlunum munu 400 manns starfa við sportbílasmíðina en hjá MG Rover í Longbridge störfuðu 6.100 manns þegar fyrirtækið fór í þrot.