Microlino – of smár fyrir ES-kaupastyrk
Hér á FÍB-fréttum hefur verið fylgst með Microlino allt frá því að fyrstu frumgerðir þessa rafknúna örbíls komu fram 2016 hjá svissnesku sprotafyrirtæki. Loks nú er hann orðinn að veruleika. Hann var sýndur fullburða á IAA-sýningunni í Munchen fyrr í mánuðinum og fyrstu kaupendurnir eru að fá farartæki sín. En það er komið babb í bátinn: Evrópusambandsríkin gefa kaupendum enga meðgjöf eins og með öðrum rafbílum. Ástæðan er að bíllinn er of lítill.
Microlino er eftirlíking og endurhönnun á ítölskum smábíl frá fyrstu eftirstríðsárunum sem hét Isetta. Isetta var framleidd bæði á Ítalíu og í Þýskalandi, m.a. hjá BMW undir nafninu BMW Isetta. Þá var hann knúinn lítilli tvígengis-skellinöðruvél, en hinn nýi Microlino er knúinn rafmótor. Það er eiginlega megin munurinn.
Microlino var sýndur í Munchen í keyrslu- og skoðunarhæfu standi án alls aukabúnaðar en þannig er grunnverðið 12.500 evrur eða rétt tæpar tvær milljónir króna. Í Munchen gaf einnig að líta fjölmargar tegundir og gerðir rafbíla eins og t.d. hinn nýja Dacia Spring sem kostar rétt undir 11 þúsund evrum en ríkismeðgjöf er gefin með honum t.d. í Noregi, sem er rétt tæpar 10 þús. evrur.
Ástæða þessa er sú að Microlino er skilgreindur sem smáfarartæki eða ,,Micromobility“ og þannig farartæki falla utan við kaupendastyrkjarammann í ES. Þótt ekki sé hægt að efast um að smábíll sem Microlino henti mjög vel til að skjótast milli húsa og hverfa í þéttbýli, taki svipað stæðarými og þrír smábílar, hafi um 200 kílómetra drægi og þurfi ekki nema 2-3 klst. hleðslutíma úr venjulegri rafmagnsinnstungu, þá hafa yfirvöld hingað til almennt minni áhuga á örbílunum heldur en þeim bílum sem fylla út í 12 fermetra rými og eru a.m.k. tvö til tvö og hálft tonn að þyngd. Einhverjum kann að þykja það undarlegt að styrkja slík flykki frekar en farartæki sem er einungis eru um 500 kíló að þyngd og þekja flatarmál sem er aðeins 252x147 sm.