Miðla þekkingu og ræða leiðir til að auka umferðaröryggi á heimsvísu
Á heimsþinginu um umferðaröryggi, sem lauk í Stokkhólmi í gær, var lögð á það gífurleg áhersla að bæta umferðaröryggi og alla innviði þeirra um heim allan á næstu árum. Ljóst er að mun meira fjármagni verður veitt í þá þætti sem snúa almennt að umferðaröryggi en áður hefur verið gert.
Á þinginu var fjallað um reynslu og innleiðingu Svía og nokkurra annarra ríkja á stefnu um núllsýn í umferðaröryggi (e. Vision Zero). Núllsýn felst í því að stefna skuli að því að engin banaslys eða alvarleg slys verði í umferðinni í náinni framtíð. Mikilvægt væri að viðurkenna ekki að banaslys í umferðinni geti verið viðunandi ástand og miða opinberar áætlanir, aðgerðir, fræðslu og eftirlit við núllsýn. Frá því að stefnan var innleidd í Svíþjóð árið 1997 hefur tekist að draga úr umferðarslysum um helming.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sótti heimsþing um umferðaröryggi (3rd Global Ministerial Conference on Road Safety), sem lauk í Stokkhólmi í dag. Markmið ráðstefnunnar var að miðla þekkingu og ræða leiðir til að auka umferðaröryggi á heimsvísu, meðal annars á grunni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
80 samgönguráðherrar víðs vegar af úr heiminum sótti heimsþingið en auk þeirra stjórnendur og fulltrúar alþjóðastofnana og félagasamtaka og fulltrúar frá atvinnulífinu, þ.á m. bifreiðaframleiðendum og fjárfestingarfyrirtækjum. Alls tóku um 1.700 manns þátt í ráðstefnunni frá 140 löndum.