Mikil breyting milli ára í sölu á rafbílum
Nýskráningar rafknúinna fólksbíla á Íslandi voru um 75,6% færri á fyrstu sex mánðum ársins í samanburði við sama tímabil á síðasta ári. Nýskráningar hreinna rafmagnsbíla eru 956 það sem af er árinu en voru 3.921 yfir sama tímabil í fyrra. Þegar nýskráningar fólksbifreiða í öllum flokkum er skoðaðir er um 38% samdráttur í bílasölu. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.
Heildar nýskráningar fyrstu sex mánuðina eru 6.355 á móti 10.299 á síðasta ári. Bíla til ökutækjaleiga eru tæp 65% og til almennra notkunar 45%. Fyrstu sex mánuðina eru flestar nýskráningar í hybrid-bílum, eða tæp 24%. Dísil-bílar koma næstir með 23% og bensín-bílar í þriðja sætinu með 21,5%. Tengiltvinnbílar eru með 16,5% hlutdeild og rafmagnsbílar 15%.
Flestar nýskráningar eru í Kia, alls 978 bifreiðar, sem er um 15,7% hlutdeild á markaðnum. Hyundai er í öðru sæti með 905 bifreiðar og Toyota í þriðja sæti með 794 bifreiðar. Það eru miklar breytingar að eiga sér stað á milli ára. Árið í fyrra var þannig sögulegt í sölu rafbíla á Íslandi en þá seldust meðal annars um 3.100 eintök af Tesla Model Y. Það var metsala en fyrra metið var sett 1988 þegar rúmlega 1.200 Toyota Corolla-bifreiðar voru skráðar. Sala á bensín- og díselbíla hefur tekið mikinn kipp eins og tölur gefa glöggt til kynna.
Sértækar aðgerðir stjórnvalda sem sneru að rafbílum hafa dregið úr sölu þeirra. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, tiltekur í samtali við Morgunblaðið átta aðgerðir stjórnvalda á síðustu tveimur árum sem hafi verið sölu rafbíla í óhag en sölu bensín- og díselbíla í hag. Hann færir rök fyrir því að minni sala rafbíla geti óbeint ýtt undir notkun íblöndunarefna í bensín og dísel á næstu árum. Það kunni aftur að leiða til hærra eldsneytisverðs.
Fleira kemur til sem gæti haft áhrif á dvínandi sölu. Um síðustu áramót voru samþykkt lög um kílómetragjalds sem kveða á um að af bíl sem knúinn er rafmagni eða vetni verði greitt kílómetragjald að fjárhæð sex krónur fyrir hvern ekinn kílómetra, en kílómetragjald af tengilbifreið verður tvær krónur á kílómetra.
Bifreiðagjald á rafbíla hafi einnig meðal annars verið hækkað, úrvinnslugjald sett á rafbíla, ívilnun tekin af og settur á orkustyrkur þess í stað sem sé 42% lægri og jafnframt verið sett 10 milljón króna þak á styrkinn.