Mikil endurnýjun á bílaflota sænsku lögreglunnar
Svíar hafa á síðustu mánuðum verið að endurnýja bílaflota lögreglunnar. Undir lok síðasta árs var farið að afhenta fyrstu bílana og nú hafa yfir tvö hundrað bílar verið teknir í notkun.
Þetta eru einu mestu breytingar sem ráðist hefur verið í innan sænsku lögreglunnar og verða enn fleiri bílar teknir í notkun á næstu misserum. Bílarnir eru af gerðinni Volvo V90 og XC60 og fóru í gegnum stórar prófanir og fínstillingu fyrir afhendingu.
Heildarkostnaður við þessa endurnýjun á bílaflotanum er talinn nema yfir tveimur milljörðum sænskra króna. Hver bíll kostar yfir tíu milljónir íslenskar krónur.
Bílarnir eru vel tæknilegar útbúnir en í þeim eru eru fimm myndavélar sem saman mynda 360 gráðu mynd af umhverfinu. Auk þess eru þrír radarskynjarar sem mæla sjálfkrafa hraða bílanna í kring og geta þannig greint hraðakstur án þess að lögreglan þurfi að setja upp hraðaeftirlit.
Hins vegar hafa myndavélarnar ekki enn verið teknar í notkun. Efasemdir eru um hvort löglegt sé að nota þær en lögreglan heldur því fram að byrjað verði að nota myndavélarnar á þessu ári þegar öll leyfi hafa fengist. Talsmaður lögreglunnar segir að með þessum búnaði verða bílarnir frábært tæki í starfi gegn alvarlegri skipulagðri glæpastarfsemi, ekki bara þegar kemur að því að stemma stigu við brotum í umferðinni.