Mikil fjölgun alvarlegra slysa vegna framanákeyrslna - aðskildar akstursstefnur bjarga mannslífum
Samgöngustofa sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun varðandi aukningu á framanákeyrslum á vegum landsins. Með tilkynningunni fylgir samanburður á fjölda framanákeyrslna fyrstu fjóra mánuði ársins yfir 10 ára tímabil. Gögnin eru unnin upp úr slysaskráningu Samgöngustofu og þar kemur fram að á árinu 2017 létust þrír af völdum framanákeyrslna en það sem af er þessu ári hafa fimm látist vegna framanákeyrslna.
Mynd 1 sýnir heildarfjölda slasaðra og látinna en á mynd 2 sést fjöldi slasaðra erlendra ferðamanna í slíkum slysum. Þótt Íslendingar séu stærsti hluti slasaðra og látinna, vegna framanákeyrslna, þá sést að fjöldi slasaðra og látinna erlendra ferðamanna rúmlega tvöfaldast frá því í fyrra og hækkar um 138% á meðan fjöldi Íslendinga hækkar um 49%. Það er því hlutfallslega mun meiri aukning erlendra ferðamanna í þessari tegund slysa. Heildarfjöldi slasaðra og látinna í framanákeyrslum fyrstu fjóra mánuði ársins 2018 hækkar um 64% frá sama tímabili ársins 2017.
Mynd 1
Mynd 2
Mynd 3
EuroRAP
Nú í vor voru birtar niðurstöður þriðja áfanga öryggisúttektar EuroRAP á íslenska vegakerfinu. Samkvæmt öryggismatinu eru aðeins 25% íslenskra vega með þrjár stjörnur eða meira. Reynsla annarra þjóða sýnir að fyrir hverja krónu sem varið er til að bæta vegaöryggi hagnast þjóðfélagið að jafnaði um tvær til fjórar í fækkun slysa. Þessi sjálfsagða þjóðhagfræði hefur ekki náð inn í fjármálaáætlanir ríkisstjórna á liðnum árum. Vonandi eru bjartari tímar framundan varðandi forgangsröðun í þágu öryggis.
Víravegrið forðar alvarlegu slysi
Í þessu myndbandi, sem birtist í morgun á facebook síðu Samgöngustofu, sést árekstur frá því í vor á Hellisheiði á Suðurlandsvegi. Sérfræðingar Samgöngustofu segja ljóst er ef ekki hefði verið búið að setja vegrið þarna á milli hefðu afleiðingar þessa óhapps orðið mjög alvarlegt slys. Það hefði ekki verið hjá því komist að bifreiðarnar hefðu lent í framanákeyrslu á u.þ.b. 90 km hraða. Almennt gildir það viðmið að öryggisbúnaður, a.m.k. nýrra bifreiða, er ætlað að koma í veg fyrir banaslys á hraða sem er allt að 70km/klst.