Mikill áhugi á samgöngumálum í aðdraganda kosninga
Það er áhugavert í tengslum við prófkjörsmál á höfuðborgarsvæðinu að sjá að margir frambjóðendur leggja mikla áherslu á samgöngumál. Skipulag og greiðari umferð höfðar til kjósenda og það hafa frambjóðendur móttekið. Umferðaröryggi hefur oft á tíðum verið afgangsstærð í pólitískri umræðu hér á landi en á því er að verða breyting. Nútímamaðurinn eyðir drjúgum tíma í umferðinni og það er sjálfsögð krafa að umferðin sé sem öruggust og greiðust.
Þessi áhersla á umferðaröryggismál er sérstakt fagnaðarefni og vonandi komin til að vera í pólitískum aðgerðum og umræðu í framtíðinni.
Allt frá stofnun FÍB hefur efling umferðaröryggis og umferðarmenningar verið meðal helstu baráttumála félagsins. FÍB er aðili að FIA, alþjóðasamtökum bifreiðaeigenda, sem vinna mjög markvisst að eflingu umferðaröryggis.
Í grein í Morgunblaðinu í gær (3.11.2005) fjallar Birgir Þór Bragason, sem er í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um öflugt umferðaröryggisstarf FIA og hvernig það nýtist hér á landi vegna aðildar FÍB að FIA. Birgir segir að þrennt skipti höfðumáli varðandi öruggari umferð, bifreiðin, vegurinn og ökumaðurinn. Maðurinn er breyskur og bregst ekki alltaf rétt við aðstæðum, óhöpp og röng viðbrögð eru hluti af daglegum raunveruleika.
Til að draga úr alvarleika umferðarslysa leggur FIA áherslu á örugga bíla sem aka um á öruggum vegum undir stjórn þjálfaðra ökumanna með óskerta athygli. FIA er kjölfestan í EuroNCAP, öryggisprófun bifreiða, sem hefur stóraukið öryggi ökumanna og farþega. FIA er einnig bakhjarl EuroRAP sem er mat á öryggisþáttum vega með nýrri hugsun og vinnubrögðum varðandi frágang umferðarmannvirkja. Öryggisprófun EuroNCAP hefur skilað sér í verulegri fækkun alvarlegra slysa og aðal ástæða fækkunar alvarlegra slysa hér á landi á liðnum árum. Bílarnir koma að utan en við verðum sjálf að bæta mannvirkin og umhverfi vega í anda EuroRAP. Sama á við um ökunámið, umferðarfræðsluna og umferðaráróðurinn. Þarna eru allir í sama liði. Með aðild FÍB að FIA er hægt að miðla og aðlaga að íslenskum aðstæðum gæða verkefnum á sviði umferðaröryggismála.
FÍB er nú sem endranær tilbúið til samvinnu við stjórnmálamenn í öllum flokkum um framgang umferðaröryggismála og greiðari samgöngur.