Mikill munur á verði trygginga – Vörður með lægsta tilboð í fimm tilfellum af sex
Í nýrri verðkönnum Verðlagseftirlits ASÍ kemur fram að mikill munur getur verið á verði á tryggingum og eru neytendur hvattir til að fá tilboð frá ólíkum félögum. Könnunin sýnir að verðlagning tryggingafélaganna er misjöfn eftir tryggingategundum og að minni munur sé á tilboðum tryggingafélaganna ef þau innihalda margar ólíkar tryggingar.
Leitað var tilboða hjá eftirfarandi tryggingafélögum; Sjóvá, TM, VÍS og Verði. Tilboð þessi miðast við verð án afsláttarkjara sem standa til boða hjá sumum tryggingafélögum og geta falist í fyrsta árs afslætti eða endurgreiðslu verði engin tjón á samningstímabili.
Í könnuninni leituðu fjórir einstaklingar eftir tilboðum
Í könnuninni leituðu fjórir einstaklingar eftir tilboðum í „tryggingapakka“ hjá tryggingafélögunum fjórum þar sem leitað var eftir tilboðum í sambærilegar tryggingar og viðkomandi var þegar með. Þá óskuðu tveir einstaklingar eftir tilboðum í bílatryggingar eingöngu.
Fram kemur í könnun ASÍ að Vörður var með lægsta tilboð í alla stærri tryggingapakka sem innihéldu margar tryggingar. Mest var 37% eða 88.904 kr. munur á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í tryggingapakka einstaklings sem innihélt m.a. bílatryggingu, fjölskyldu- og heimilistryggingu og húseigendatryggingu. Vörður var með lægsta tilboðið en TM það hæsta. Vörður var með lægsta tilboðið í alla fjóra tryggingapakkana.
Mest var 51% eða 126.545 kr. verðmunur á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í lögbundnar ökutækjatryggingar auk bílrúðu- og kaskótryggingar, þar sem VÍS var með lægsta tilboðið en TM með hæsta tilboðið. Einhver munur getur verið á tryggingum milli tryggingafélaganna vegna ólíkra skilmála og mun á tryggingafjárhæðum sem voru þó stilltar af svo þær væru sem næst því að vera eins.
FÍB hefur um árabil gagnrýnt fákeppni milli tryggingafélaganna
FÍB hefur reiknað út að tryggingafélögin gætu lækkað iðgjöld bílatrygginga hér á landi um 7 milljarða króna á ári en samt væri afkoma félaganna af viðskiptunum ágæt. Eftir sem áður væru íslenskir neytendur að borga hæstu iðgjöld bílatrygginga á Norðurlöndunum. Alls greiddu eigendur ökutækja 37 milljarða króna í iðgjöld bílatrygginga árið 2020. Fólksbílar eru 87% skráðra ökutækja og lendir þessi reikningur því að megninu til á heimilunum.
FÍB hefur um árabil gagnrýnt fákeppni milli tryggingafélaganna og mikla sjóðasöfnun með ofteknum iðgjöldum. Þá hefur FÍB nýlega bent á að þrátt fyrir mikla fækkun umferðarslysa undanfarin ár, þá hafa iðgjöld bílatrygginga hækkað jafnt og þétt allan tímann. Það sem af er þessu ári hafa þau hækkað um 6% og samtals um 44% á undanförnum fimm árum.
Verð á tryggingum hefur hækkað umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs
Í verðkönnun ASÍ kemur fram að verð á tryggingum hefur hækkað umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs á síðustu tveimur árum þrátt fyrir mikinn hagnað tryggingafélaganna og háar arðgreiðslur. Á einu ári, frá desember 2020 til desember 2021 hækkuðu tryggingar um 7,4% og bílatryggingar um 8,3% samanborið við 5,1% hækkun á vísitölu neysluverðs. Á tveimur árum nemur verðhækkun á tryggingum 10,9% borið saman við 8,9% hækkun vísitölu neysluverðs á sama tíma.
Tveir einstaklingar sem hafa ekki átt bíl og hafa því enga tjónasögu fengu tilboð í ökutækjatryggingar hjá tryggingafélögunum fjórum. Annar var 20 ára og fékk tilboð í ökutækjatryggingu (m. bílrúðutryggingu og kaskótryggingu) fyrir smábíl, 2017 árgerð. Hinn var 30 ára og fékk tilboð í sömu tryggingar fyrir 2014 árgerð af annarri tegund af smábíl. Hvorugur einstaklingurinn hefur átt bíl áður.
Meiri verðmunur var á tilboðinu sem yngri einstaklingurinn fékk (bíll 1 á mynd), 51% eða 126.545 kr. þar sem TM var með hæsta tilboðið en VÍS með það lægsta. Munur á hæsta og lægsta tilboði í tryggingu fyrir sama bíl án kaskótryggingar var 44%. Töluvert minni munur, 8% eða 14.696 kr. munur var á því tilboði sem eldri einstaklingurinn fékk (bíll 2 á mynd). Í því tilviki var Sjóvá með hæsta tilboðið en Vörður það lægsta. Ef kaskótrygging er tekin úr tilboðinu er tilboð VÍS 1,1% lægra en Varðar.
Fjórir einstaklingar, einn í viðskiptum við hvert tryggingafélag, voru fengnir til að óska eftir tilboði í sínar tryggingar hjá öllum tryggingafélögunum. Fólkið var á ólíkum aldri, þó öll komin yfir þrítugt og misjafnt var hverskonar tryggingar þau voru var með. Enginn var með nýlega eða mikla tjónasögu. Óskað var eftir tilboði í sambærilegar tryggingar og það var þegar með hjá sínu tryggingafélagi og voru tryggingafjárhæðir og upphæðir sjálfsábyrgðar samræmdar eins og möguleiki var á. Til að koma í veg fyrir rekjanleika tilboðanna verða einungis birtar tölur um verðmun á tilboðunum en ekki nákvæmt verð á tilboðunum.
Tryggingapakkarnir í könnuninni innihéldu allir bíla-, fjölskyldu- og heimilistryggingar,
Upphæð tilboðanna var á bilinu 300-500 þúsund krónur en eins og eðlilegt er verð á þeim tilboðum sem innihéldu flestar tryggingar almennt hærri. Ökutækjatryggingar eru alltaf dýrastar og vega því þyngst en þar á eftir koma húseigendatryggingar, brunatryggingar og fjölskyldu- og heimilistryggingar. Tryggingapakkarnir í könnuninni innihéldu allir bíla-, fjölskyldu- og heimilistryggingar, flestir húseigendatryggingar og brunatryggingar og sumir persónutryggingar, barnatryggingar eða gæludýratryggingar.
Vörður var með lægstu tilboðin í tryggingapakka allra fjögurra einstaklinganna en TM og VÍS voru með hæstu tilboðin í tveimur tilfellum hvort um sig. Tilboð frá Sjóvá voru næst lægst í þremur tilfellum af fjórum en allir fjórir einstaklingarnir sem óskuðu eftir tilboði í sína tryggingapakka voru með tryggingar sem gefa þeim aðgang að Stofni, vildarþjónustu Sjóvá og fá því betri kjör en ella af tilteknum tryggingum sem endurspeglast í tilboðunum.
Félagar í Stofni fá einnig endurgreiðslu af tilteknum tryggingum ef þeir eru tjónlausir í lok greiðslutímabils sem er ekki tekin með í samanburði á tilboðunum. Ef endurgreiðslan væri tekin með í reikninginn væru tilboð Sjóvá lægri en tilboð Varðar í þremur tilfellum af fjórum.
Fjölskyldu- og heimilistryggingar og bílatryggingar ódýrastar hjá Verði en barna- og brunatryggingar ódýrastar hjá Sjóvá.