Mikill samdráttur heldur áfram
Umferðin á Hringvegi í júní dróst saman um níu prósent í júní sem er mjög mikill samdráttur. Mestur varð samdrátturinn á Mýrdalssandi þar sem 62 prósentum færri ökutæki fóru um teljarann en í sama mánuði fyrir ári. Frá áramótum hefur umferðin dregist sama um 14 prósent að því fram kemur í upplýsingum frá Vegagerðinni.
Umferðin yfir 16 lykilteljara á Hringvegi reyndist 9% minni í júní miðað við sama mánuð á síðasta ári. Mestur mældist samdrátturinn um lykilsnið á Austurlandi eða tæplega 35% en minniháttar aukning mældist yfir mælisnið á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða 0,2%.
Þó að Austurland sýni mestan samdrátt þá dróst umferðin mest saman yfir teljara á Mýrdalssandi eða um rúmlega 62% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Aðeins teljari við Úlfarsfell sýndi aukningu sem nam 3,4%.
Það sem af er ári hefur aðeins einn mánuður sýnt aukningu en það var febrúar með 0,6% aukningu.
Nú hefur umferðin dregist saman um rúm 14%, frá áramótum, miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er mesti samdráttur sem mældur hefur verið miðað við árstíma fyrir lykilmælisniðin 16.
Umferðin hefur dregist mest saman um Austurland eða um 32% en minnst um teljara á eða í grennd við höfuðborgarsvæðið eða tæplega 7%.