Mikill samdráttur í nýskráningum rafmagnsbíla
Bílasala er aðeins að rétta úr kútnum þó enn sé langt í land, samanborið við sölutölur á sama tíma á síðasta ári. Nýskráningar fólksbifreiða eru orðnar 5.258 en voru í fyrra 8.156. Samdrátturinn er 35,5% en hann var töluvert meiri á fyrri mánuðum þessa árs að því er fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu.
Athygli vekur hvað nýskráning rafmagnsbíla hefur dregist saman á milli ára. Í dag eru nýskráningar rafmagnsbíla 774 sem er um 14,7% hlutdeild markaðsins. Það hefur ekki verið lægra í langan tíma. Fyrstu fimm mánuði ársins í fyrra voru flestar nýskráningar í hreinum rafbílum, alls 2.500 bílar, sem var um 40,5% hlutdeild á markaðnum. Breytingarnar í þessum efnum eru því umtalsverðar.
Þegar rúmlega 20 vikur eru liðnar af árinu er hlutfall hybrid-bíla hæst, eða 24,%. Nýskráningar í þessum flokki eru alls 1.288 bifreiðar. Dísilbílar koma rétt á eftir með 1.266 bíla og bensín-bílar eru í þriðja sæti, alls 1.033 bifreiðar. Tengiltvinnbílar eru 896 og rafmagmagnsbílar 774.
Kia er söluhæsta bílategundin það sem af er árinu. Alls 780 bifreiðar sem erum 14,8% hlutdeild á markaðnum. Nýskráningar í Hyundai eru 688 og í Toyota 646. Dacia er í fjórða sætinu með 607 bifreiðar.