Mikill samdráttur í umferð á Hringvegi í janúar
Umferðin á Hringveginum í janúarmánuði dróst mjög mikið saman eða um tæp átta prósent og leita þarf átta ár aftur í tímann til að finna viðlíka samdrátt. Samdráttur er í umferðinni á öllum landssvæðum. Slæmt veðurfar í mánuðinum skýrir líklega stóran hluta samdráttarins. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Vegagerðinni.
Milli mánaða 2019 og 2020
Gríðarlegur samdráttur í umferð mældist í nýliðnum janúar borið saman við sama mánuð á síðasta ári, fyrir 16 lykilteljara á Hringvegi, en umferðin dróst saman um tæp 8%. Leita þarf aftur til ársins 2012 til að finna meiri samdrátt en þá mældist tæplega 10% samdráttur. Það sem sker sig úr núna er að samdráttur mældist í öllum landssvæðum en árið 2012 jókst umferð á Austurlandi hins vegar.
Ástæður samdráttar í umferð á Hringvegi árið 2012 er sjálfsagt flestum kunn en þá var efnahagskreppa á Íslandi, en nú hins vegar má gefa sér að afar slæm tíð í janúar eigi mesta sök á lítilli umferð.
Umferðin dróst saman á öllum landssvæðum þó mest um Vesturland eða um tæp 17% en minnst um Austurland eða um 3,5%.
Það verður afar fróðlega að fylgjast með framhaldinu og hvort að á næstu mánuðum muni áfram mælast samdráttur í umferð á Hringvegi.
Umferð vikudaga
Umferð dróst saman í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á fimmudögum en minnst á föstudögum. Eins og venja er til þá var mest ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum.