Mikill verðmunur

Verðlagseftirlit ASÍ hefur birt verðkönnun á heilsárshjólbörðum. Í henni kemur fram mikill verðmunur á ódýrasta heilsársdekkinu sem er í boði á dekkjaverkstæðum og því dýrasta. Könnunin var gerð á 19 dekkjaverkstæðum þann 8. apríl sl.  

Munur á hæsta og lægsta verði reyndist vera allt að 13.451 kr. eða 114%.  Kannað var verð á 14,15 og 16 tommu dekkjum sem eru dekk fyrir smábíla og meðalbíla. Á 14´´ og 15´´ heilsársdekkjum reyndust dekkin dýrust hjá MAX 1 en ódýrust hjá Dekkverki. Í könnuninni var einungis borið saman verð á dekkjum almennt en ekki verð á dekkjum sömu tegundar eða í sama gæðaflokki.

Mestur verðmunur í könnuninni var á 16´´ dekki sem var ódýrast á 11.795 kr. hjá Dekkjahöllinni (Sonar) en dýrast á 25.246 kr. hjá Betra gripi (Firestar) sem er 13.451 kr. verðmunur eða 114%.

Minnstur verðmunur var á 15´´ dekki sem var ódýrast á 10.500 kr. Dekkverki (Goodride) en dýrast á 19.599 kr. hjá Max 1 (Nokian) sem er 9.099 kr. verðmunur eða 87%.

14´´ dekkið var ódýrast á 8.000 kr. hjá Dekkverki (Goodride) en dýrast á 15.498 kr. hjá Max 1 (Nokian) sem 7.498 kr. verðmunur eða 94%.

Gæðin skipta máli

Kannað var verð á ódýrasta heilsársdekkinu í eftirfarandi stærðum 175/65R14, 195/65R15 og 205/55R16 hjá 19 dekkjaverkstæðum víðsvegar um landið. Verðkönnunin nær einungis til þeirra verkstæða sem selja heilsársdekk og ekki er tekið tillit til gæða í samanburðinum. En gæði dekkja skipta miklu máli, þar sem þau eru stór öryggisþáttur við akstur og hafa mikil áhrif á m.a. bremsulengd og sparneytni. Í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins sem nú er í póstdreifingu er gæðakönnun á sumarhjólbörðum. Könnunin er gerð af ADAC í Þýskalandi; systurfélagi FÍB og er mjög nákvæm og ítarleg.

http://fib.is/myndir/Dekkjaverdkonnun.jpg