Mikilvægt að vegfarendur eru sýnilegir með endurskin, ljós og hjálma
Hjálmanotkun á rafhlaupahjólum er að aukast en um 80% barna nota hjálm. Viðhald og innviðir eru að verða betri og samhliða því eykst öryggið. Umhverfið er smám saman að gera sér meiri grein fyrir þessum nýja ferðamáta. Slysatíðni er tiltölulega há en fer minnkandi með bættum innviðum og aukinni reynslu notanda rafhlaupahjóla.
Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum veffundi sem Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og umferðaröryggisráð stóðu fyrir um fjölbreytta ferðamáta og öryggi léttra bifhjóla, rafhlaupahjóla og annarra smáfarartækja í umferðinni.
Það er markvisst stefna stjórnvalda að styðja við fjölbreytta ferðamáta, sérstaklega í þéttbýli til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Sjónum var einkum beint að örflæði þ.e. ýmsum smáfarartækjum í umferðinni, innviðum fyrir þau og öryggismálum sem þeim tengjast. Smáfarartækjum fjölgað mikið í umferðinni á síðustu árum, samhliða aukinni áherslu á fjölbreytta ferðamáta og aðgerðum til að efla þá.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði að á undanförnum árum hafi umtalsverðum fjármunum verið varið um land allt í samstarfi við sveitarfélög við að byggja innviði fyrir fjölbreytta ferðamáta þar sem að öryggi ferðalanga er í öndvegi.
„Örflæði er hugtak sem við notum fyrir umferð þessara smáu fararskjóta í stað enska hugtaksins „micromobility“. Í samgönguáætlun er áfram gert ráð fyrir fjárveitingum í innviði fyrir smáfarartækin til að tryggja örflæðinu öruggar brautir,“ sagði Sigurður Ingi. Ráðherra sagði ekki síður mikilvægt að vegfarendur gæti öryggi og væru sýnilegir með endurskin, ljós og hjálma.
Höskuldur Kröyer, ráðgjafi hjá Trafkon, um smáfarartæki og umferðaröryggi frá ýmsum hliðum. Hann sagði að umferðaröryggi snerist um samspil mismunandi ferðamáta. Smáfarartæki ættu margt sameiginlegt með hjólum en að ferðamátinn væri nýr og ætti eftir að þroskast.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala, fjallaði um slys við notkun rafhlaupahjóla en einnig um heilsufarslegan ávinning af fjölbreyttum ferðamátum. Samkvæmt slysaskráningu spítalans verða að meðaltali 1,6 slys daglega tengd rafhlaupahjólum í umferðinni, en ekkert þeirra var mjög alvarlegt á tímabilinu til skoðunar. Slysatíðni reyndist há meðal yngri barna en langflestir sem slasast eru á aldrinum 10-13 ára. Athygli vegur að 40% slysa sem verða hjá aldurshópnum 18 ára og eldri voru vegna áfengisneyslu en enginn slys á börnum yngri en 18 ára tengdust vímuefnanotkun sem er afar ánægjulegt.