Miklar tafir á helstu umferðaræðum í borginni
Það hefur ekki farið framhjá ökumönnum að þær framkvæmdir sem hófust á Miklubraut við Klambratún í gærmorgun hafa haft í för með sér miklar umferðartafir. Langar biðraðir hafa myndast á morgnana þegar fólk er á leið til vinnu og eins þegar fólk er á leið heim úr vinnu seinnipartinn.
Þessar tafir hafa gert það að verkum að fólk er mun lengur til vinnu, sérstaklega þeir sem búa í úthverfum borgarinnar. Ökumenn hafa verið hvattir til að gefa sér rýmri tíma en venjulega, sem og að sýna tillitsemi og aðgát við framkvæmdasvæðið. Frést hefur að ökumenn sumir hverjir hafi verið hátt í klukkutíma til vinnu úr efri byggðum borgarinnar þessa fyrstu morgna framkvæmda.
Ýmsir hafa bent á varðandi framkvæmdirnar á Miklubraut að auðvelt væri að minnka umferðatafir þeim samfara. Það væri hægt með því að raða verkefnunum betur niður og gera t.d. hjóla- og göngustíginn sem er upp á Klambratúninu fyrst. Setja síðan malarlag ofan á hann og malbik og búa þannig til bráðabirgðarakrein meðfram Miklubrautinni á meðan er verið að vinna í götunni sjálfri. Með því móti er þá ekki verið að fækka akreinum eins og verið er að gera í þessu tilfelli.
Framkvæmdirnar við Miklubraut eru ekki þær einu sem eru í gangi og verða fram eftir sumri heldur eru framkvæmdir á öllum hinum stóru götunum sem eru á austur-vestur ásnum. Miklar tafir eru nú þegar við Hörpuna þar sem er lokað um Kalkofsveg inn í Lækjargötuna. Mikil þrenging er inn á Geirsgötunni vegna vinnu við gerð nýrra gatnamóta.
Þetta ástand mun vara langt eftir sumri eins og áður sagði og svo í ofanálag standa nú yfir malbikunarframkvæmdir á Suðurlandsbrautunni frá Vegmúla niður á Kringlumýrarbraut. Eftir hádegið í dag, ekki á háannatíma, hafði myndast löng bílaröð til móts við Laugardalhöllina sem náði allt niður á Glæsibæ í austur. Margir ökumenn gripu til þess ráðs að fara um Laugardalinn og þar var umferðin einnig orðin þung.
Allt er þetta að gerast á sama tíma á þessum helstu austur-vestur ásum Reykjavíkurborgar sem þýðir að það er bara Bústaðarvegurinn sem er eftir. Hann er að vísu nú þegar orðinn pakkaður þannig að það er orðið mjög erfitt um vik að komast austur- og vestur fyrir Kvosina í Reykjavík.
Verkið á Miklubraut við Klambratún felst í að bæta forgang strætó og almennt umferðaröryggi . Framkvæmdir hefjast að norðanverðu eða Klambratúnsmegin, en þar verða aðskildir göngu- og hjólastígar, auk þess sem biðstöðvar strætó verða endurgerðar og umhverfi við akbrautina gert vistlegra við lágan vegg sem kemur meðfram akbraut.
Forgangsrein strætó til austurs verður sunnan Miklubrautar meðfram húsagötu og biðstöð þar verður einnig endurnýjað. Akrein frá Reykjahlíð beint út á Miklubraut verður aflögð og til að gera vistlegri stemningu og draga úr umferðarhraða verða gatnamót Reykjahlíðar og húsagötu við Miklubraut hellulögð í sama plani og aðliggjandi gangstéttar. Milli húsagötu og Miklubrautar kemur hljóðdempandi steyptur veggur.
Á öllu framkvæmdasvæðinu verður götulýsing endurbætt eftir þörfum. Verkið er unnið í samvinnu við Vegagerðina og Veitur. Heildarkostnaður við framkvæmdina er um 350 milljónir króna. Hlutur Reykjavíkurborgar er um 170 milljónir.
Á verktíma má gera ráð fyrir töfum á umferð vegna fækkunar akreina, en stefnt er að því að verkþáttum sem kalla á takmarkanir á umferð verði lokið í ágúst. Verkinu í heild á að ljúka í október.