Miklu færri dauðaslys á negldum dekkjum
Ný finnsk slysarannsókn leiðir í ljós að mikill meirihluti þeirra bíla sem lenda í slysum að vetrarlagi þar sem fólk lætur lífið, eru á ónegldum vetrardekkjum. Skýrastur verður munurinn þegar vegur er ísilagður. Við þær aðstæður hefðu dauðaslysin orðið 83 prósent færri hefðu slysabílarnir ekki verið á ónegldum vetrardekkjum heldur negldum.
Rannsóknin var gerð hjá tæknirannsóknastofnuninni VTT í Finnlandi. Rannsökuð voru öll þau banaslys sem orðið hafa að vetrarlagi í landinu á árunum 1997-2012 þar sem við sögu komu fólksbílar og sendibílar. Öll banaslys sem verða í umferðinni í Finnlandi eru rannsökuð mjög nákvæmlega og allt skráð sem skiptir máli, eins og ástand bílanna og einstakra hluta þeirra, svo sem hjólbarðanna. Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós að ef nagladekk yrðu bönnuð og allir ækju á ónegldum dekkjum að vetrarlagi, myndi dauðaslysum í umferðinni fjölga um 9 á ári að meðaltali.
Fram kom að þeir sem aka á ónegldum dekkjum eru almennt reynslumeiri ökumenn en hinir sem aka á negldum vetrardekkjum. En um leið taka þeir „ónegldu“ ekki nógu vel eftir hálkuástandi vegarins, eru almennt kærulausari en þeir á negldu dekkjunum og aka allt að 20 km yfir hámarkshraða, eru oftar að aka undir áhrifum áfengis og dekkin undir bílnum hjá þeim of slitin og í verra ástandi en hjá þeim sem eru á negldu dekkjunum.
Motormagasinet í Svíþjóð spyr einn af tæknistjórum Nokian dekkjaframleiðandans í Finnlandi um þessar niðurstöður. Hann segir að negld og ónegld vetrardekk hafi bæði sína kosti og sína galla. Höfuðkostur ónegldu dekkjanna er sá að setja má þau undir bílinn fyrr á haustin og taka þau seinna undan að vori heldur en nagladekkin. Óumdeilt sé að negldu dekkin grípi betur í ísinn en þau ónegldu. Oft séu hálkublettir á og við vegamót, bæði ísing en líka harðtroðinn og háll snjór sem komi á óvart þeim „ónegldu“ sem eigi erfiðara með að bregðast rétt við og í tæka tíð. Þá bendir tæknistjórinn á það að fyrir þá sem aka á ónegldum vetrardekkjum sé það verulegt öryggismál að visst lágmarkshlutfall umferðarinnar sé á negldum dekkjum sem ýfa upp ísinn sem aftur verður til þess að skapa betra grip fyrir ónegldu dekkin.