Milljón Audibílar í Kína
Audi náði miklum áfanga í Kína í vikunni þegar milljónasti bíllinn í Kína rann af færibandinu í verksmiðju Audi og kínverska samstarfsaðilans FAW í Changchun. Enginn annar vestrænn framleiðandi gæðabíla (Premium-bíla) hefur náð viðlíka söluárangri í þessu fjölmenna ríki. Og menn ætla ekki að láta deigan síga því að tveggja milljón bíla markinu ætla þeir að ná á næstu þremur árum.
Audi er meðal fyrstu vestrænu bílaframleiðendanna sem hóf starfsemi í Kína. Framleiðsla á Audi bílum hófst þegar árið 1988 í samstarfi við elstu bílaverksmiðju Kínaveldis, FAW (First Automobile Works) en þessi ríkisbílaverksmiðja var stofnestt árið 1953.
Segja má að Audi hafi skapað sér visst forskot með því að vera meðal þeirra allra fyrstu með vestræna bíla á boðstólum í Kínaveldi, einmitt þegar bílaöld og almenn bílaeign er að ganga í garð í þessu fjölmenna og víðlenda ríki. Mikilli veislu var slegið upp í Chanchung þegar milljónasti Audi bíllinn í Kína rann af færibandinu – blásanseraður Audi Q5 – og var afhentur kaupandanum sem er heimamaður í Chanchung. Sjö þúsund gestum var boðið til veislunnar, þar á meðal starfsfólki verksmiðjunnar.
Ekki alveg allir þessir milljón Audi bílar sem Kínverjar hafa keypt frá árinu 1988 til þessa dags eru byggðir í verksmiðjunni í Changchung því að 50 þúsund þeirra eru innfluttir. Afgangurinn, 950 þúsund stykki eru hins vegar frá Changchung og þar á meðal eru tvær sérgerðir fyrir Kínamarkað. Þær kallast A6L og A4L og eru eiginlega lengdir A6 og A4.
Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa 175 þúsund Audibílar selst í Kína og ef heldur fram sem horfir munu 200 þúsund bílar seljast áður en árið er á enda. Til samanburðar hafa selst 122 þúsund BMW bílar á sama tímabili og 101 þúsund Mercedes Benz bílar.