Milljón DSG gírkassar
07.02.2008
Nýjasti bíll FIB aðstoðar er með DSG gírkassa.
Nýi DSG sjálfskipti gírkassinn hefur gefist Volkswagen vel. Þessi gírkassi, sem til þessa hefur einungis verið fáanlegur í Volkswagenbílum, kom fyrst fram í VW Golf R32 árið 2003 og síðan þá hafa selst milljón Volkswagenbílar með DSG gírkassa. Í dag eru framleiddir 1.750 DSG gírkassar á dag og fjórða hver ný Volkswagenbifreið er með slíkum gírkassa.
DSG er skammstöfun fyrir Direkt-Schalt-Getriebe á þýsku eða Direct-Shift-Gearbox á ensku. DSG gírkassi er í grunninn hefðbundinn gírkassi. Innbyggðar í hann eru tvær kúplingar sem kúpla saman og sundur á víxl og skipta um gír. Meðan önnur kúplingin er tengd er hin aftengd og setur í hærri eða lægri gír sem svo bíður eftir að hans verði þörf. Skiptingarnar eru mjög snöggar og mjúkar þannig að þær finnast vart í akstri og nánast eins og uppskiptingar séu stiglausar. Innri mótstaða í þessum búnaði er mjög lítil, miklu minni en í hefðbundinni sjálfskiptingu og einnig minni en í hefðbundnum handskiptum gírkassa og eldsneytiseyðsla þar af leiðandi minni.
DSG gírkassarnir hafa verið sex gíra til þessa en nú eru einnig komnir sjö gíra DSG kassar hjá VW. Þeir verða í fyrstu fáanlegir í gerðunum VW Golf TSI 122 og Golf 1,9 TDI. Í frétt frá VW segir að sjö gíra kassinn verði innan tíðar fáanlegur í flestum bílagerðum Volkswagen samsteypunnar, það er að segja í VW, Audi, Skoda og Seat bílum.
Þess má að lokum geta að FÍB aðstoð hefur tekið í notkun nýja þjónustubifreið af gerðinni VW Caddy Life. Bíllinn er einmitt með 1,9 l dísilvél og sex gíra DSG gírkassa.