Milljónir bíla skemmast í holunum
Veturinn hefur verið erfiður víða í N. Evrópu í vetur, hríðar og ófærð hafa geisað aftur og aftur og nú er ástandið á vegunum víða orðið þar eftir. Í Bretlandi og Danmörku og efalaust víðar, hafa miklar holur myndast í vegi og skemmdir orðið á bílum sem ekið hefur verið ofan í þessar holur. Breskir ökumenn eru æfir vegna þessa ástands.
Í viðhorfskönnun meðal 23 þúsund ökumanna í Bretlandi sögðust þriðjungur þeirra hafa orðið fyrir tjóni við það að aka ovart ofan í holu á vegi. Ýmist skemmdust bílarnir og urðu óökufærir, eða þá að tjón varð, sem gróf um sig í bílnum og olli því að hann bilaði síðar. Ef þessi svörun endurspeglar raunveruleikann í umferðinni í Bretlandi gæti hún þýtt það að nærri því 20 milljón ökumenn hefðu orðið fyrir tjóni af þessum sökum á vegunum nú í vetur.
Það virðist nokkuð standa í breskum vegayfirvöldum að hefjast handa við að gera við vegina og útrýma holunum. Veðurfarið hefur ekki beint verið hagstætt undanfarið en þar að auki skortir fé til að lappa upp á vegakerfið, en viðhald þess hefur verið vanrækt undanfarin ár. Talið er að það kosti hátt í 20 milljarða punda að koma því í þolanlegt lag á ný að því er BBC útvarpið segir.
Í áðurnefndri könnun töldu einungis 10% svarenda að stór-breska vegakerfið væri í ágætu horfi. Svörin fóru nokkuð eftir búsetu fólks, enda er ástandið nokkuð misjafnt eftir landsvæðum. Verst er það talið vera í Skotlandi, Yorkshire og Humber.
Í fyrra var fyllt upp í um 2,2 milljón holur í breskum vegum. Talið er að nú þegar hafi myndast enn fleiri holur en það sem bráðliggi á að lagfæra. Verði það ekki gert hið bráðasta telja breskir fjölmiðlar að bresk vegayfirvöld og veghaldarar stand frammi fyrir skaðabótakröfum og málaferlum í meira mæli en nokkru sinni áður.