MINI mun auka úrval nýorkubíla og hefja framleiðslu í Kína
Breska bílamerkið MINI hyggst auka úrval raf- og tengiltvinnbíla á næstu misserum og árum auk þess sem leggja á aukna áherslu á markaði Kína með bílaframleiðslu þar í samvinnu við þarlent fyrirtæki að sögn Bernds Körber, yfirmanns hjá MINI.
Tuttugu ár eru nú liðin frá því að MINI gekk í endurnýjun lífdaga með kaupum BMW Group á bílaframleiðandanum. Á þeim tíma hafa verið framleiddar um fjórar milljónir bíla í verksmiðjunni í Oxford sem afhentir hafa verið viðskiptavinum í yfir eitt hundrað löndum um allan heim.
Þarfir og óskir viðskiptavina hafa ávallt mótað stefnu MINI og því kom Clubman t.d. á markað 2015 til að mæta þörfum og óskum um aukið flutningsrými. Í kjölfarið kom Countryman 2017 og standa Clubman og Countryman nú undir um 40% heildarsölu MINI ásamt því sem rafvæddar tegundir njóta sívaxandi vinsælda.
Kína er stærsti markaður veraldar fyrir bíla og fer stækkandi. Kína er jafnframt fjölmennasta land veraldar, stórborgirnar fjölmargar og fjölmennar og í því ljósi er Kína afar mikilvægur vettvangur fyrir MINI, þar sem fyrirtækið selur 10% framleiðslu sinnar.
Til að standa vörð um hagsmuni sína á kínverska markaðnum hefur verið ákveðið að hefja þar eigin bílaframleiðslu í samvinnu við kínverska framleiðandann Great Wall Motor sem mun sinna innlenda markaðnum með skilvirkari hætti en nú er unnt. Gert er ráð fyrir að framleiðslan hefjist 2023 og geri MINI kleift að mæta aukinni eftirspurn eftir rafbílum þar í landi.