Minjasafn Volvo 10 ára
28.05.2005
Í dag, laugardag er haldið upp á það í Gautaborg í Svíþjóð að tíu ár eru síðan Volvo minjasafnið var formlega stofnað. Farið var í hópakstur í morgun um miðborg Gautaborgar á sögulegum Volvo bílum og sérstök hátíðarsýning hefur verið sett upp í safninu.
Áður en safninu var formlega komið á fót safnaði Volvo í Gautaborg saman og geymdi sögulega bíla, vinnuvélar, skipa- og flugvélamótora, strætisvagna, rútur og vörubíla í flugskýli skammt utan við Gautaborg. Árið 1963 sagði tímaritið „Stýrið“ sem Volvo þá gaf út, frá því að tekist hefði að safna saman eintökum af öllum bílum, vélum og tækjum sem Volvo þá hafði framleitt fyrstu 25 ár starfseminnar. Eitthvað hafa sumir þessara muna farið á flakk eftir það, því að Volvo á ekki lengur eintök af ýmsum merkum farartækjum eins og t.d. PV657 sjúkrabíll og LV70 slökkvibíll sem smíðaðir voru í fáum eintökum. Og árið 1964 þegar Torslanda samsetningarverksmiðjan í Gautaborg var vígð þurfti Volvo að fá lánaðan bíl af fyrstu gerð Volvo fólksbíls (Volvo ÖV4) til að aka þeim Gústafi Adolf Svíakóngi og nafna hans Larson, eins stofnenda Volvo í viðhafnarakstri um svæðið.
Um 1975 voru fáeinir fornbílar Volvo geymdir og sýndir í gömlu flugskýli við Torslanda flugvöll og voru fæstir þeirra gangfærir. Verksmiðjurnar áttu nokkra til viðbótar sem voru geymdir á sölustöðum Volvu vítt og breitt um Svíþjóð.
Flugskýlið við Torslanda brann um 1980 en bílarnir björguðust úr brunanum og var þeim komið fyrir í öðru og stærra flugskýli á öðrum gömlum flugvelli sem lagður hefur verið niður. Upp úr því var farið að huga að stofnun safns og markvisst byrjað að safna gömlum bílum og koma þeim í upprunalegt stand. Verulega bættist við safngripina þegar keypt var gott Volvo-fornbílasafn af umboðsmanni Volvo i Belgíu um langan tíma, Charlie Mannerie. Nú eru í safninu um 75 fólksbílar og á þriðja tug vörubíla og fólksflutningabíla auk fjölda vinnuvéla, mótora og tveggja flugvéla. Aðgangseyrir að safninu er 30 SKR.
Frá opnun Volvo safnsins 1995. Í miðið er Volvo PV444 Til vinstri er hvítur P1800. Til hægri er sérstætt eintak PV61 blæjubíl ásamt dökkbláum PV56.