Minni eftirspurn í Evrópu og N-Ameríku
Bílaframleiðendur eru farnir að merkja minni eftirspurn í Evrópu og Norður-Ameríku. Sérfræðingar segja vaxandi vísbendingu um að neytendur séu hikandi í kaupum vegna hækkandi verðs og aukinnar verðbólgu.
Bílaframleiðendur segja að þeir hafi farið að taka eftir minni eftirspurn strax í mars á þessu ári. Svo hefði stríðið í Úkraínu ekki bætt ástandið. Bíðtími eftir nýjum bílum er farinn að styttast vegna minni eftirspurnar.
Verðbólga í Evrópu og Bandaríkjunum hefur aukist mikið undanfarna mánuði og hafa seðlabankar gefið það út að þeir sjái þá þróun ekki breytast á næstunni. Könnun þýsku Ifo-stofnunarinnar í München, sem birt var á miðvikudag, sýndi að pöntunarstaða þýskra bílaframleiðenda dróst saman og verðvæntingar á niðurleið vegna hættu á gasskorti og áframhaldandi veikleika í kínverska hagkerfinu.
Bandaríski bílaframleiðandinn Ford hefur íhugað að lækka verð á bílum sínum og koma af stað ívilnunum sem voru felldar niður á síðasta ári.