Minni umferð í síðustu viku en í sömu viku árið 2019
Umferðin í viku 11 var ríflega tveimur prósentum minni en í sömu viku árið 2019. Sé tekið mið að íbúafjölgun (sem ætti að leiða til aukningar umferðar) þá sýnir samdrátturinn að minna er umleikis í þjóðfélaginu vegna Covid-19 en ella.
Umferðin yfir 3 lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, í 11. viku ársins, reyndist 2,2% minni en í sömu viku árið 2019 (en nú er ómarktækt að bera saman við árið 2020 vegna mikilla sveiflna í umferðinni þá út af Covid). Einkenni umferðarinnar eru þó svipuð og í ,,venjulegu ári” en að jafnaði er umferðin um 2% minni (ef horft er framhjá tveim fyrstu vikum ársins).
Ef við tengjum umferðina við umsvifin í þjóðfélaginu (eins og Vegagerðin hefur sýnt fram á hægt sé að gera) þá má draga þá ályktun að það sé ekki eins mikill þróttur/slagkraftur í íslensku þjóðfélagi og var á sama tíma árið 2019.
Í rauninni gæti munurinn verið meiri en þessi tvö prósent því ef þjóðfélagið á að halda í horfinu þurfa umsvifin að aukast í takt við íbúaþróun og samkvæmt Hagstofu Íslands fjölgaði Íslendingum á þessu tveggja ára tímabili um 3,2%, þ.a.l. mætti draga þá ályktun að samdrátturinn frá árinu 2019 sé í raun um 5% sem telja verður umtalsvert og alveg ljóst að þjóðfélagið er ekki komið upp úr Covid-áhrifum, sé tekið mið af þessum tölum.
Breytingar í viku 11, eftir mælisniðum á milli áranna 2019 og 2021
- Hafnarfjarðarvegur við Kópavogslæk -9,2%
- Reykjanesbraut við Dalveg í Kópav. +1,9%
- Vesturlandsvegur ofan Ártúnsbrekku -0,8%