Minnkandi bílasala - of bratt farið í breytingar
Um síðustu áramót voru samþykkt lög um kílómetragjald sem kveða á um að af bíl sem knúinn er rafmagni eða vetni verði greitt kílómetragjald að fjárhæð sex krónur fyrir hvern ekinn kílómetra, en kílómetragjald af tengilbifreið verður tvær krónur á kílómetra. Á sama tíma voru felldar úr gildi skattaívilnanir vegna rafbíla. Það sem af er árinu hefur nýskráningum fólksbíla fallið um helming og þá alveg sérstaklega í rafbílum.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sat fyrir svörum á Reykjavík sídegis á Bylgjunni um þetta mál og þróunina sem átt hefur sér stað síðan ný lög tóku gildi um síðustu áramót.
Að einhverju leyti verið vanhugsað
Runólfur sagði eitt er að setja markmið eins og stjórnvöld gerðu á sínum tíma. Eitt af stórum atriðunum í markmiðasetningunni var að ná árangri í umhverfismálum, að fara í orkuskipti í samgöngum. Stjórnvöld ákváðu þá að bjóða upp á verulega afslætti af opinberum gjöldum til kaupa af rafknúnum ökutækjum. Um síðustu áramót var hins vegar stórlega dregið úr þessum hvötum og þar að auki var lagt á svokallað kílómetragjald á rafbíla og tengiltvinnbíla. Við erum greinilega að sjá að þetta hefur að einhverju leyti verið vanhugsað því við sjáum verulegan samdrátt í nýskráningum ökutækja. Á síðasta ári var um helmingur nýrra fólksbíla rafknúnir en í dag er þetta hlutfall orðið allt annað. Það sem af er þessu ári er þetta hlutfall 20% þannig að samdrátturinn er verulegur.
,,Manni virðist að stjórnvöld fari ekki í djúpa vinnu þegar þessar ákvarðanir voru ákveðnar. Við sáum í aðdraganda þessara kerfisbreytinga þá var það nánast ekki kynnt fyrr en í desembermánuði sl. sem kom síðan til framkvæmda í byrjun þessa árs. Þetta fellur ekki undir vönduð vinnubrögð. Menn slá sér á brjóst og hrósa sér fyrir að gera eitthvað í aðdraganda hluta en síðan þegar verður bakslag er eins og enginn sé til svara eða ábyrgur gagnvart því. Ég tek það fram að við sem félag teljum mjög eðilegt að það sé verið að borga fyrir afnot af vegakerfinu, hvort sem verið sé að aka dísilbíl eða rafbíl. Þessar kerfisbreytingar, sem tóku gildi um síðustu áramót, voru bara sennilega of yfirgripsmiklar og stórar. Við erum að sjá þetta hrun í sölunni núna annars vegar og vantrú hjá almenningi hins vegar. Það virðist nú sýna sig að þó margir taki ákvörðun að kaupa rafbíl út frá umhverfissjónamiðum þá eru flestir sem gera það út frá heimilisbókhaldinu. Þetta þyrftu stjórnvöld í vandaðri stjórnsýslu að taka tillit til. Þarna vantar töluvert upp á vinnubrögðin,“ sagði Runólfur.
Hefði átt að halda niðurgreiðslum áfram
Runólfur sagði ennfremur að til að gera betur en þetta hefði átt að halda þessum niðurgreiðslum áfram, í það minnsta að fara ekki svona bratt í breytingarnar. Tillögurnar sem lagðar voru fram á sínum tíma var að draga smám saman úr niðurfærslum á virðisaukaskatti. Í stað þess að fara alfarið úr því kerfi í einfalda styrkveitingu sem er mun lægri upphæð. Aðlögunin hefði geta orðið svona þrjú ár því við erum að sjá það með aukunni framleiðslu á rafbílum á heimsvísu þá verður rafbíllinn innan örfárra ára á svipuðu verði og bensín- og dísilbílar eru á í dag. Menn hefðu þá fengið tækifæri til að sjá þróunina sem menn hafa reyndar ennþá tækifæri til.
Lyktar of mikið af geðþótta ákvörðunum
,,Ég veit ekki hvort við eigum von á einhverjum uppátækjum í desember nk. Það er engin kallaður til skrafs og ráðagerða. Við sem félag með yfir 20 þúsund félagsmenn voru aldrei kölluð að þessu borði. Sama á við um samtök sem eru í innflutningi og í þjónustu á ökutækjum. Enginn var kallaður til. Þetta lyktar of mikið af geðþótta ákvörðunum,“ sagði Runólfur Ólafsson.