Minnkum umferðaráhættuna!

Umferðarráð kom saman til fundar þann 9. júní 2005 og samþykkti ályktun um sumarumferðina í ár. Hún er svona:
„Umferðarráð minnir á að framundan er álagstími á vegum landsins. Reynslan sýnir að flest alvarlegustu umferðarslysin verða á þjóðvegum utan þéttbýlis að sumarlagi.  Mánuðina júní, júlí og ágúst, árin 1995 til 2004 létust 75 manns í 66 umferðarslysum hér á landi, þar af 12 erlendir ferðamenn.
Til þess að breyting verði á er að mati Umferðarráðs brýnt að allir leggist á eitt til þess að koma í veg fyrir slys. Löggæslu á vegum þarf að efla, vegmerkingar, m.a. við framkvæmdir þarf að bæta, áróður og fræðsla þarf að vera mikil, en fyrst og fremst þarf hver einasti vegfarandi að vera meðvitaður um þá miklu ábyrgð sem fylgir þátttöku í umferðinni.  Ökumaður sem fer varlega og eftir settum reglum er ekki einungis að minnka áhættu sína og farþega sinna heldur allra annarra í umferðinni.
Umferðarráð beinir þeirri eindregnu áskorun til allra landsmanna að þeir skeri upp herör gegn slysum í umferðinni. Enginn má þar skorast undan.”