Minnsta nýbílasalan frá 1990

Eftirspurn eftir nýjum fólksbílum í Evrópu í janúarmánuði varð 8,7 prósent minni en í sama mánuði í fyrra. Kreppan í sölu nýrra bíla í álfunni heldur því áfram og nýliðinn janúar er sá versti í þessu tilliti síðan 1990. Nýskráningar í janúarmánuði voru samkvæmt tölum ACEA-samtaka evrópskra bílaframleiðenda, 885.159.

http://www.fib.is/myndir/Linurit-b.sala.jpg

Bretland er eina markaðssvæðið í álfunni þar sem nýskráningar í janúar voru fleiri en í sama mánuði í fyrra. Aukningin var reyndar umtalsverð þar eða 11,5%. Aðra og verri sögu er að segja frá Þýskalandi. Þar varð samdrátturinn -8.6%, á Spáni -9.6%,  í Frakklandi -15.1%) og á Ítalíu -17.6%. Þýskaland er enn það markaðssvæði sem kaupir flesta bílana en nýskráningar þar urðu í janúar sl. alls 192.090. Næst flestar nýskráningar urðu í Bretlandi; 143.643, þá í Frakklandi 124.798 og á Ítalíu, 113.525. Á Spáni urðu nýskráningar 49.671 eða aðeins færri en í Belgíu en þar urðu nýskráningarnar 50.684 talsins.

Þessi áframhaldandi samdráttur í sölu nýrra bíla kemur mis illa niður á einstökum framleiðendum. Verst slær hann niður hjá Ford (-26%) og hjá Peugeot og Toyota (-16%). Ford mætir samdrættinum með því að loka þremur bílaverksmiðjum í Evrópu. Minnstur varð samdrátturinn hjá Volkswagen (-5,5%) og þar er stóra myndin sú í öllu svartnættinu að hlutdeild Volkswagen  í bílamarkaði Evrópu fer stækkandi. Þá hefur samdrátturinn lítt eða ekki náð til lúxusbílanna. Samdrátturinn hjá Audi, sem reyndar er hluti Volkswagen samsteypunnar varð einungis 2,1 prósent. Hjá BMW jókst salan um 9,4 prósent og hjá Mercedes um 4,7 prósent.