Misráðið að fella niður leyfin – færir okkur aftur um 30 ár
Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) og Bílgreinasambandið (BGS) gagnrýna áform atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að fella niður skilyrði um leyfisveitingar fyrir sölu notaðra ökutækja, þ.m.t. kröfu um námskeið og próf fyrir bílasala í sameiginlegri umsögn.
Tillagan er hluti af aðgerðaáætlun ráðuneytisins um einföldun regluverks í stjórnsýslunni en FÍB og BGS telja þetta afar misráðið. Verði þessir skilmálar afnumdir sé ekkert sem komi í veg fyrir að svikahrappar hasli sér völl á þessum markaði og fari sínu fram, líkt og raunin hafi verið í nágrannalöndunum. Velta í sölu notaðra ökutækja hér á landi ár hvert er á bilinu 60-80 milljarðar. Þetta kemur fram í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur einnig að alls hafa 93 fyrirtæki í dag leyfi til sölu notaðra ökutækja, þar af 72 á höfuðborgarsvæðinu. Hjá þeim starfa á fjórða hundrað sölumanna sem hafa setið löggildingarnámskeið fyrir bílasala og staðist próf.
Áform um afnám yfir þúsund reglugerða og stórátak í einföldun flókins regluverks í stjórnsýslunni, sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynntu í vikunni felst að stórum hluta í förgun á úreltu regluverki. En þegar fella á niður fjölda reglugerða kann það að hafa afleiðingar og mæta andstöðu.
Á Norðurlöndunum sem annars staðar í Evrópu er mikil umræða um hvernig koma megi böndum á óviðunandi ástand í viðskiptum með ökutæki. Fagaðilar í Evrópu hafa horft sérstaklega á ,,íslenska módelið“ sem ákjósanlega leið til að bæta viðskiptasiðferði og neytendavernd í bílaviðskiptum. Á sama tíma telur ráðherra viðskipta- og neytendamála rétt að fella gæða- og neytendakröfur brott úr íslenskri löggjöf.
Núverandi stöðu þessara mála er ágætlega lýst í skýrslu starfshóps á vegum forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu sem var skilað í september 2018. Á blaðsíðu 10 í skýrslunni segir m.a.: „Viðskipti af ýmsu tagi, svo sem fasteignaviðskipti, bílaviðskipti og þess háttar, fara fram í andrúmslofti trausts þar sem fólk virðist litlar áhyggjur hafa af því að það verði hlunnfarið ef það gætir sín ekki.“
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu um heilbrigt andrúmsloft í bílaviðskiptum þá boðar neytendaráðherra í þessari sömu ríkisstjórn niðurrif á einföldu kerfi sem fulltrúar atvinnulífsins og neytenda vilja efla frekar en rífa niður. Getur verið að ekki hafi verið haft samráð um þetta í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur?
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, var í viðtali á Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um þessi áform ráðuneytisins. Viðtalið við Runólf má nálgast hér.