Mitsubishi bregst við samkeppni í Evrópu
22.06.2005
Mitsubishi Colt smábíllinn sem kom gjörbreyttur – alveg nýr bíll – inn á Evrópumarkað í lok síðasta árs hefur þýtt algjöran viðsnúning fyrir Mitsubishi í Evrópu. Mitsubishibílar höfðu þá lítið breyst um langt árabil og þóttu orðið gamaldags og salan var hrunin. Coltinn fékk mjög góðar viðtökur hjá bílablaðamönnum og almenningi en hefur þótt of dýr og nú alveg nýlega brást Mitsubishi við því með því að lækka verðið verulega eða sem svarar um 100 þúsund krónum.
Hekla hf umboðsaðili Mitsubishi hefur ekki boðið Colt til sölu hér á landi einmitt vegna fyrri verðstefnu Mitsubishi en lækkunin nú gæti þar með þýtt breytingu þar á. Í Danmörku kostar ódýrasta gerð af Colt nú tæplega 1,7 millj. kr. sem er vísbending um að hér á landi myndi hann kosta 1,4-1,5 m.kr. sem er svipað og sambærilegir japanskir smábílar aðrir kosta. Þessi ódýrasta gerð er með 75 ha. vél og með allan helsta öryggisbúnað svo sem loftpúða, ABS hemla og ESP stöðugleikabúnað.
Motormagasinet í Danmörku setur fram þá kenningu að það sé einkum samkeppnin við nýja Suzuki Swift bílinn sem fengið hafi Mitsubishi til að lækka verðið. Swiftinn er einn sá rúmbesti í flokki smábíla en Mitsubishi segir að Coltinn sé bæði stærri að innan og lengri á milli hjóla en Swiftinn.
Annað svar Mitsubishi við samkeppni í smábílaflokknum er ný sportútgáfa af Colt. Sá nefnist CTX og er með 150 hestafla túrbínubensínvél. CTX er með vandaðri innréttingu og styrktum undirvagni og yfirbyggingu. Hann er 8 sekúndur í hundraðið úr kyrrstöðu, kemst á 210 og myndi kosta hér á landi um tvær milljónir kr.
Rúmbestur smábíla, segir Mitsubishi í Evrópu.