Mitsubishi lokar í Hollandi

Mitsubishi hefur ákveðið að loka bílaverksmiðju sinni, NedCar í Hollandi. Starfsemi þar verður hætt fyrir næstu áramót og þá missa 1.500 starfsmenn vinnuna, nema að einhver annar framleiðandi taki upp þráðinn. Verksmiðjan er í Born í sunnanverðu Hollandi.

Á áttunda áratug síðustu aldar voru þarna framleiddir smábílar af gerðinni DAF (Van Doorne's Automobiel Fabriek). Daf bílarnir voru sérstakir að því leyti að þeir voru með stiglausri reimaskiptingu, ekki ósvipað og snjósleðar hafa. Þessi skipting var fyrirrennari stiglausra CVT sjálfskiptinga nútímans.

http://www.fib.is/myndir/Volvo_343_variom.jpg
Reimaskiptingin í Volvo 66 og 343.
http://www.fib.is/myndir/Volvo-66-1975.jpg
Volvo 66.

Eftir að Volvo eignaðist verksmiðjuna ásamt hollenska ríkinu, breyttist DAF í Volvo 66 auk þess sem ný gerð; Volvo 343, leit dagsins ljós.  Frá árinu 1991 kom svo Mitsubishi að rekstri verksmiðjunnar með Volvo og hollenska ríkinu og þá voru byggðir þar samtímis Volvo S40/V40 og Mitsubishi Carisma, en í grunninn voru þetta einn og sami bíllinn. Síðustu árin hafa Mitsubishi Outlander og Mitsubishi Colt verið byggðir í verksmiðjunni og á síðasta ári urðu afköstin alls 47 þúsund bílar sem er minna en fjórðungur afkastagetu hennar.

Mitsubishi tilgreinir þær ástæður lokunarinnar helstar að gengi japanska jensins sé óhagstætt starfseminni. Þá hafi samdráttur verið í sölu Mitsubishibíla í Evrópu og því sé nær að snúa sér betur að þeim markaðssvæðum þar sem betur hefur gengið, eins og Asíu, S. Ameríku og Rússlandi.

Hollenska ríkið dró sig út úr rekstri NedCar árið 1999 og sama gerði Volvo árið 2001, en fyrir átti Volvo bílaverksmiðju í Gent í Belgíu og þar voru áfram byggðir Volvo S40/V40 bílar.