Mitsubishi og Renault í samvinnu
Renault-Nissan og Mitsubishi Motors Corp. hafa komið sér saman um nána samvinnu. Fyrsti ávöxturinn verður nýr Mitsubishi Lancer sem í grunninn er Renault bíll og síðar kemur nýr smábíll, einnig frá Renault. Hann verður framleiddur og seldur undir merkjum beggja og fást bæði sem rafbíll og hefðbundinn bruanahreyfilsbíll. Hinn nýi samstarfssamningur fyrirtækjanna var formlega kynntur í morgun.
Stærri bíllinn, Lancerinn sem fyrr er nefndur, verður byggður í Renault-Samsung verksmiðjunni í Busan í S. Kóreu. Hann verður í boði á hefðbundnum mörkuðum Mitsubishi í Evrópu og Asíu en einnig í Kanada og Bandaríkjunum. Minni bíllinn verður sömuleiðis seldur á sömu markaðssvæðum. Ekki er hins vegar sagt í frétt fyrirtækjanna frá í morgun, hvar hann verður framleiddur heldur aðeins að það mál sé á viðræðustigi. Ekki er heldur tilgreint hvenær bílanna er að vænta.
Í fréttinni segir Carlos Ghosn (tv á mynd) forstjóri Renault-Nissan hinsvegar að þetta nýja samstarf muni verða báðum aðilum til hagsbóta og marki þau tímamót fyrir Renault að nú stefni í það að Renault-framleiddir bílar verði senn aftur fáanlegir í Bandaríkjunum í fyrsta sinn síðan 1987 - árið þegar Renault seldi hlut sinn í American Motors til Chryslers.