Mjög sparneytinn BMW X3
Ný og sérlega sparneytin „standard“ gerð jeppans BMW X3 verður fáanleg í söluumboðum BMW í Evrópu frá og með næsta mánuði. Vélin í honum verður dísilvél, 1,8 lítra að rúmtaki, 143 hestafla, eyðslan 5,1 l á hundraðið og CO2 útblásturinn einungis 135 grömm á kílómetrann.
Vinsælasta gerð BMW X3 hefur hingað til verið sú sem nefnist xDrive 20d. Vélin í honum er 2ja lítra dísilvél, 184 hestafla og með 380 Nm vinnslu. En vinnslan í nýju vélinni er svosem lítið minni eða 360 Nm á snúningshraðabilinu 1.750-2.500 sn./mín.
En auk nýju vélarinnar er sparneytnin einnig fólgin í start-stopp búnaði og því að ekkert fjórhjóladrif er í þessum nýja X3 heldur er einungis drif á afturhjólunum. Gírkassinn er 6 gíra handskipting og þannig búinn er eyðslan einungis 5,1 lítri á hundraðið. Fáanleg er þó einnig 8 hraða sjálfskipting en með henni er eyðslan 5,4 lítrar á hundraðið og CO2 útblásturinn 142 grömm á kílómetrann. Viðbragð þess beinskipta er 9,9 sekúndur í hundraðið en 10,3 sek. fyrir þann sjálfskipta.