Mjög stór gaslind fundin í landhelgi Noregs
24.05.2005
Norska Shell olíufélagið hefur uppgötvað mjög stóran gasbrunn undir hafsbotni utan við Kristianssand. Þetta er talið vera mesti gasfundur í 24 ár eða síðan gasforðabúrið Ormurinn langi fannst á svipuðum slóðum. Nýja gasbrunninum hefur verið gefið nafnið Onyx. Hann er talinn hafa að geyma 60 milljarða rúmmetra af gasi.
Það ríkti mikil gleði hjá ráðamönnum Shell í Noregi þegar tilkynnt var um þennan gasfund og kannski ekki skrítið því að það var síðast árið 1984 sem norska Shell fann nýja orkulind - gasbrunninn Drauginn. Vinnsla hófst úr Draugnum árið 1993 og hefur verið mikill hagnaður af henni allar götur síðan.